Skírnir - 01.01.1971, Blaðsíða 115
SKÍRNIR
ÞINGVALLAFUNDUR 1888
113
ísfirðinga, Sunnmýlinga, Vestur-Skaftfellinga, Vestmannaeyinga né
Rangæinga. Svo sem vænta mátti fara tillögur þingmálafunda mjög
eftir landshlutum. Þingmálafundir héraðanna við Faxaflóa og
Breiðafjörð leggja megináherzlu á stuðning við gufubátsfélagið,
sem fyrr er frá sagt, og vilja, að landssjóður styrki það. Þingmála-
fundir Gullbringu- og Kjósarsýslu, Borgfirðinga og Brj ánslækj ar-
fundur Barðstrendinga fóru fram á bein fjárframlög úr landssjóði.
Snæfellingar og Dalamenn vildu, að landssjóður styrkti félagið,
einkum með því að tryggja vexti af hlutabréfum þess. Þingmála-
fundir Strandamanna óskuðu sérstaklega eftir því, að það yrði eigi
lengur látið við gangast, að hafnirnar við Húnaflóa, Borðeyri og
Blönduós, færu á mis við allar strandferðir, svo að þær gætu komið
að meiri notum en verið hefði hinum fjölbyggðu héruðum, er liggja
kringum Húnaflóa. Þingmálafundir Húnvetninga, Skagfirðinga og
Eyfirðinga miða tillögur sínar mest við þarfir Norðurlands. Skag-
firðingar skoruðu á Alþingi að sjá til þess, að fimm ferðir að
minnsta kosti gengju norður fyrir land á hverju sumri. Eyfirðingar
kröfðust þess, að ferðirnar norður fyrir land yrðu að minnsta kosti
sex og töldu, að ferðir strandferðaskipanna þyrftu að byrja í apríl
og halda áfram til októberloka. Tillögur Þingeyinga eru ekki eins
bundnar við Norðurland. Þeir lögðu alla áherzluna á það, að ferð-
irnar kringum landið gætu orðið hagfelldari en verið hefði, þær
þyrfti að auka bæði með ströndum fram og innan fjarða og fjölga
viðkomustöðum strandferðaskipanna. Ef þessum kröfum fengizt
fullnægt, töldu þeir til vinnandi að auka fjárframlög til strandferð-
anna.
Þingmálafundur Norðmýlinga samþykkti ekki sérstaka ályktun
um samgöngumál. En hann. samþykkti áskorun til þingsins um að
efla sem mest atvinnuvegi landsins bæði til lands og sjávar, og
nefndi „haganlegri gufuskipsferðir“ fyrstar þeirra umbóta, sem
hann taldi nauðsynlegar í þeim tilgangi.
Þingmálafundur Árnesinga skoraði á þingmenn kjördæmisins að
mælast til þess, að „póstgufuskipið“ kæmi við í Þorlákshöfn. Að
öðru leyti voru strandferðir ekki ræddar á þeim fundi.
Eins og fyrr segir gerði Þingvallafundurinn það að áskorun sinni
til Alþingis, að framvegis yrði ekkert fé veitt til hins danska gufu-
skipafélags, en mælti með gufubátsferðum eingöngu með ströndum
8