Skírnir - 01.01.1971, Blaðsíða 94
SKÍRNIR
92 BJÖRN K. ÞÓRÓLFSSON
mundu missa vináttu vinstrimanna í Danmörku, ef Þingvallafundur
samþykkti slíka tillögu. Telur Þjóðviljinn, að í þessu máli hafi
Þingvallafundarmönnum yfirsézt.
Eins og fyrr segir er á lausu blaði í skjölum Þingvallafundarins
talið meðal fyrirhugaðra dagskrármála heillaóskarávarp til konungs.
Ekki mun það mál hafa komizt öllu lengra en á þetta blað. I grein,
sem Þjóðviljinn flytur 9. febrúar 1889 og undirskrifuð er „Þing-
vallafundarmaður“, segir, að „þó að þess eigi sjáist getið í hinum
„censureruðu“ (ritskoðuðu) Þingvallafundartíðindum“, hafi sumir
Þingvallafundarfulltrúarnir gengið „með ávarpssting í maganum
hart haldnir“, en aftur á móti hafi allur þorri fundarmanna verið
þeirrar skoðunar, að bezt ætti við að ríkisstjórnarafmælið væri hér
á landi látið með öllu afskiptalaust. Því hafi „þetta ávarpsmál“ um-
ræðulaust verið tekið út af dagskrá fundarins.
Þá ritskoðun, sem greinarhöfundur telur að höfð hafi verið við
útgáfu Þingvallafundartíðinda, kennir hann auðvitað Birni Jóns-
syni. Eftir þeim ummælum ísafoldar, sem fyrr er getið, er sennilegt,
að hann hafi verið því meðmæltur, að Þingvallafundurinn sendi
konungi hollustu og hamingjukveðju vegna ríkisstjórnarafmælis
hans. En hafi allur þorri fundarmanna verið slíku ávarpi svo mót-
snúinn sem í Þjóðviljagreininni segir og ekki er ástæða til að vé-
fengja, er skiljanlegt, að Birni hafi þótt heppilegast að nefna málið
alls ekki í Þingvallafundartíðindum. Með fundarslitaræðu sinni hef-
ur hann viljað bæta nokkuð um skort fundarmanna á konung-
hollustu.
Frásögn Þingvallafimdartíðinda af meðferð fundarins á alþýðu-
menntunarmálinu er harðlega gagnrýnd og sögð mjög ónákvæm í
aðsendri grein í Norðurljósinu 17. des. 1888, en henni svarar Þjóð-
ólfur 1. marz 1889 og síra Páll Pálsson að því er til hans kom í
Norðurljósinu 21. s. m. Síðasta orðið í þessum deilum var Isafold-
argrein síra Arnórs Árnasonar, sem getið er í einni þeirra athuga-
semda við fyrra hluta þessarar ritgerðar, sem fara hér á eftir. I
Þingvallafundartíðindum er allt um meðferð þessa máls rétt prent-
að eftir handritum fundarritara, ef frá er skilin ein meinlítil prent-
villa. En ekki væri undarlegt, þó að fundarriturum hefði einhvern
tíma brugðizt nákvæmnin, því að varla hefur alltaf verið kyrrð í
tj öldunum.