Skírnir - 01.01.1971, Blaðsíða 182
JAKOBÍNA SIGURÐARDÓTTIR:
SJÖ VINDUR GRÁAR
Smásögur. Skuggsjá 1970
Jakobína Sigurðardóttir hefur áunnið sér heitið ádeiluhöfundur, og það
með réttu, en háð og skop eru jafnan nærtæk vopn slíkum höfundum. Háð
(írónía) er einn þáttur ádeilunnar í skáldsögunni Snörunni, en þar er háðið
napurt og gamanlaust. Jakobína hefur hins vegar beitt skopskyni sínu í ádeilu
til meiri hlítar í sumum smásögum sínum, og til þess að íhuga þennan þátt
ritverka hennar, er ekki úr vegi að staldra við smásögu eina í bókinni Púnkt-
ur á skökkum stað. Þessi saga, sem ber heitið: Halldóra Þorsteinsdóttir:
„Móðir, kona, meyja“, er glöggt dæmi um tækni höfundar í sögu, þar sem háð
og skop haldast í hendur, til þess að koma ádeilu á framfæri. Sagan er í
formi samkvæmisræðu, sem birtist á prenti og er þar fylgt úr hlaði með lof-
samlegum formála. Ræðan var upphaflega flutt til heiðurs húsfreyju í sveit,
Guðrúnu í Túni, og tilefnið var sextugsafmæli bónda hennar. Þótti ræðu-
manni, frú Halldóru, ástæða til að geta húsfreyjunnar að nokkru, því að „hún
er þó ein þeirra eiginkvenna, sem allir heilbrigðir karlmenn þrá að eignast,"
eins og hún kemst að orði. I venjulegu samkvæmisræðuformi er síðan dregin
upp mynd af húsmóður og heimilisháttum, sem vanabundinn hugsunarháttur
telur giftusamlegasta. Fórnfýsin, lítillætið og nægjusemin sitja í fyrirrúmi, og
syngur ræðumaður þessum eiginleikum lof og dýrð, en dregur á hinn bóginn
upp niðrandi mynd af nútímakonu í Reykjavík, sem stundar sjálfstætt starf
og hyggur sig vera jafningja bónda síns. Þessi kona er vitanlega alger and-
stæða við Guðrúnu í Túni, sem veit „hvað það er að lifa fyrir eiginmann og
börn í anda Jesú Krists“ og gleymir ekki „að búa um hjónarúmið“. I þessari
sögu notar Jakobína kunnáttusamlega hið gamalkunna bragð ádeiluhöfunda
að virðast bera þann málstað fyrir brjósti, sem þeir eru í rauninni að for-
dæma. I þessari sögu er málstaðurinn styrktur með tveim málsvörum, ræðu-
manninum sjálfum og formanni fél. Heimilisverndar, sem tekur það fram í for-
málsorðum fyrir birtingu ræðunnar, að hún hafi vakið svo „mikla og verð-
skuldaða athygli“, að hún hafi verið flutt á vegum flestra kvenfélagasambanda,
nokkurra ungmennafélaga og bændafélaga úti á landi. Lesandinn uggir ekki
að sér í byrjun: varla getur svo fjölmennu liði traustra máttarstólpa hafa
skjöplast dómgreindin. En hin trúverðuga bygging sögunnar er einmitt styrk-
asta stoð ádeilunnar, ásamt ræðuforminu sjálfu, þar sem venjulegt og hvers-
dagslegt tungutak ríkjandi hugmynda fær að njóta sín, en óðar en varir hefur
höfundurinn snúið merkingu orða og hugtaka í andhverfu sína. Jakobína
sýndi það í Snörunni, að hún er meistari í slíkum brögðum, en í þessari sögu
er það skopið, sem mestu ræður um heildaráhrifin. Með hugvitssamlegum stíl-
brögðum og skoplegum lýsingum sýnir hún okkur, hvað felst í rauninni undir
yfirborði dyggðarinnar, og áður en lesandinn veit af er hann farinn að hlæja
að sínum eigin vanabundna hugsunarhætti, þ. e. a. s„ hlæja að „dyggðinni" og
finna til samúðar með „löstunum“.