Skírnir - 01.01.1971, Blaðsíða 179
JÓHANNES ÚR KÖTLUM:
NÝ OG NIÐ
Heimskringla, Reykjavík 1970
.... og Jóhannes úr Kötlum, sem e. t. v. framar öllum hefur átt það
hljómborð, er hvað bezt hefur endurómað áslátt tímans, og einn
sinna jafnaldra hefur tekið þeirri myndbreyting frá hefð til óbund-
ins, nútímalegs skáldskapar, að við ekkert er jafnandi nema endur-
fæðing, og sté úr hreinsunareldinum ungur og ferskur með beztu
bók sinni, Sjödægru. (Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atóm-
öld, bls. 38.)
Á síðastliðnu hausti hljómaði enn einn sláttur af því hljómborði, sem hér
var nefnt, og er eigandi þess, skáldið Jóhannes úr Kötlum, þá á sjötugasta og
öðru aldursári. Fyrir hina nýju bók sína, Ný og nið, hlaut hann svo bók-
menntaverðlaun ritdómara dagblaðanna í Reykjavík, silfurhestinn. Hér skal
ekki ritaður dómur um þá bók í heild - með verðlaunaveitingunni felldu at-
vinnuritdómarar yfir henni þann dóm, sem verðugur er - heldur einungis
hugað að einum þætti bókarinnar, þe. þeim þætti, sem Sveinn Skorri kallar
áslátt tímans. Hver er endurómur hins aldna hljómborðs við áslátt hinna síð-
ustu tíma?
Löng er hún orðin leiðin, sem liggur frá fyrstu bók Jóhannesar, Bí bí og
blaka, til þessarar nýjustu bókar hans, - og sú breyting, sem hefur orðið,
er ekki einangruð og bundin við persónusögu skáldsins, þar hefur einn
þjáningarfullur kafli veraldarsögunnar verið ritinn. Hinn ungi og rímglaði
Jóhannes, sem bæði trúði á guð og ungmennafélögin, hlaut sökum næmni
sinnar og opinna augna þau örlög að verða að hafna sauðkindafegurð og guðs-
barnagamni snemma á ævinni. I upphafskvæði bókarinnar Samt mun ég vaka,
gerir hann svofelld reikningsskil:
Og ég, sem er fóstur fjallanna sjálfur,
reika á krossgötum, rauður álfur.
Því - hvort á ég heldur að halda upp í dalinn,
eða ganga út í heimsstríð með Gorkí og Stalín?
Eg kýs heldur stríðið - því stórt er að vinna.
Síðan þetta var kveðið hefur margt voveiflegt gerzt í henni veröld og ekki
hafa allir heimsstríðendur reynzt jafngóðir félagar. En heimsstríð Jóhannes-
ar hefur reyndar aldrei verið háð fyrir þá félaga Gorkí og Stalín eina saman,
heldur fyrir eigin samvizku og því réttlæti, sem ekki verður keypt eða kúgað.
Því hefur hann verið tilbúinn að hafna bæði Stalín og sjálfum sér, hafi þeir
ekki dugað í baráttunni sem skyldi:
12