Skagfirðingabók - 01.01.1985, Síða 30
SKAGFIRÐINGABÓK
síður en nú, og er það, sem betur fer, sjaldnast til lasta
(M. H. G„ 23).
Þó að þeir feðgar, Arni og Jón á Hafsteinsstöðum, hafi ekki
alltaf verið sammála um menn og málefni, virðist
Hafsteinsstaðabóndinn hafa sýnt unglingaskólanum mikinn
áhuga, sbr. tillögur hans í sýslunefnd 1910 um aukna unglinga-
fræðslu. Vel má vera að hann hafi hjálpað syni sínum út úr
mestu fjárhagsörðugleikunum sem hlutust af byggingunni og
skólahaldinu.
Enda þótt Árni væri ekki lærður kennari, hefur hann verið
kennari að upplagi. Steinar Bjarnason systursonur Árna dvaldi í
Vík sumurin 1915 —16, þáá tíunda og ellefta ári. Hann segir svo
í bréfi til höf. í nóvember 1983:
Árni hafði þá eðliskosti frá náttúrunnar hendi að vera
alúðlegur, umburðarlyndur og þolinmóður. Það var hann
að minnsta kosti í minn garð, og ávallt reiðubúinn til að
útskýra hugtök og fyrirbæri, sem ég hafði áhuga á að
reyna að skilja. Aðeins eitt dæmi um það: Síðla dags að
áliðnu sumri var hann að vinna utanhúss og hafði mig
með sér til aðstoðar. Hann var skrafhreifinn og talaði um
alla heima og geima. Þar kom að hann fór að tala um
stjörnufræði — sennilega vegna þess að farið var að
skyggja og ein og ein stjarna að birtast á himinhvolfinu.
Þá nefndi hann sólmyrkva, og mig langaði til að vita
hvernig það fyrirbæri gerðist. Hann skýrði, eða réttara
sagt, lýsti fyrir mér hvernig það gæti gerst að sól sortnaði
við vissa afstöðu himintunglanna. En honum fannst víst
að eitthvað skorti á skilning hjá mér og sagðist þá geta
sýnt mér hvernig þetta gengi fyrir sig þegar við kæmum
heim. Og það gerði hann. Hann merkti blett á vegg og
sagði: „Þetta skulum við láta tákna jörðina." Svo tók hann
lítinn disk og sagði: „Þetta er þá tunglið, og ljósið sem
hangir í loftinu skulum við hafa fyrir sólina.“ Svo bar
hann diskinn fyrir ljósið, skuggi hans sást vel á veggnum.
28