Skagfirðingabók - 01.01.1985, Page 35
ÁRNI í VÍK
verið lýst í bókum. Allir sátu við vinnu sína, prjónaskap
og sauma, en pabbi vann gjarnan við að spinna og flétta
reipi úr ull eða hrosshári. Einhver úr hópnum var valinn
til að lesa bók, sem síðan var fram haldið næstu kvöld,
meðan hún entist. Ellegar það var sungið eða kveðist á eða
farið í leiki.
Mamma var lífið og sálin í þessu heimilislífi, ekki síst að
því er varðaði sönginn. Hún kunni ógrynnin öll af
kvæðum og sönglögum, sem hún kenndi okkur. Oft
minnist ég þess, að við krakkarnir vorum að ærslast úti í
snjó eða á svellum og börnin af nágrannabæjunum með
okkur, og þá vorum við öll kölluð heim og látin fara inn í
„rauðu-stofu“. Þar settist allt heimilisfólkið og gestirnir
niður í rökkrinu og lagið var tekið af hjartans lyst. Síðan
var ljósið kveikt og menn fóru að vinna (118 — 19).
Arni Arnason Hafstað segir í bréfi til höf. um jólaleytið 1983:
Sú mynd sem Steinunn systir hefur dregið upp af heimili
foreldra okkar í Atján konum er skýr og sönn svo langt
sem hún nær. I hana gæti ég nú bætt fáeinum dráttum um
jólahald . . . Eg geri ráð fyrir að jólahald hjá okkur hafi
verið með svipuðum hætti og gerðist á öðrum bæjum.
Allt var hreint og fágað, allir klæddir sínum bestu fötum.
Jólamatur á borðum og jólailmur í húsinu. Allir glaðir.
Þegar búið var að borða á aðfangadagskvöld las mamma
jólaguðspjallið, síðan var gengið kringum jólatréð og
sungnir jólasálmar. A jóladag eða annan í jólum messaði
séra Hálfdán Guðjónsson á Reynistað og þangað fóru
pabbi og mamma með okkur krakkana. Það var líka föst
venja á öðrum stórhátíðum þegar þar var messað. Annars
las mamma húslestur heima þessa daga. Hún las fallega; af
látleysi og myndugleik í senn. Það var mikið spilað um
jólin og áramótin. Fullorðna fólkið spilaði vist, en við
krakkarnir púkk, gosa, svartapétur og fleiri spil sem
fullorðna fólkið tók reyndar þátt í líka. Og svo var sungið
33