Skagfirðingabók - 01.01.1985, Page 51
ARNI I VIK
Glaumbæ var einn þeirra, sem oft sóttu Árna heim hin síðari
árin, og var með þeim einlæg vinátta og gagnkvæm virðing.
Mest hvíldi það á Áslaugu tengdadóttur Árna að sinna honum
síðustu áviárin, þegar þörfin var stærst. Reyndist hún honum
frábærlega vel. Árni lést hinn 22. júní 1969, áttatíu og sex ára.
Hann unni bókmenntum fornum og nýjum og hafði yndi af að
ræða um þær. Eg minnist þess, af hve mikilli þekkingu hann
talaði um Völuspá aðeins fáum mánuðum fyrir andlát sitt.
Hugstæð voru honum skáldin Matthías Jochumsson, Grímur
Thomsen, Hannes Hafstein og Stephan G. Stephansson. Sjálfur
var Árni vel hagorður þótt hann flíkaði kveðskap sínum ekki.
Hann hafði yndi af að segja frá, enda kunni hann þá list öðrum
betur. I Gráskinnu hinni meiri er frásögn birt eftir handriti
Árna (I, 141—2) og önnur sem Sigurður Nordal skráði eftir
honum (II, 43—4). Bera frásagnir þessar vott um áhuga Árna á
dulrænum efnum. I sama anda eru sögur þær sem Stefán
Vagnsson skráði eftir Árna (161—2). Ættfróður var hann vel.
Hann fylgdist líka vel með atburðum líðandi stundar. I
Skinfaxagreininni sem hann skrifaði áttræður kemur fram hin
óbifandi andúð hans á hernaðaranda og herstöðvum:
Friður vinnst aldrei með vopnum, — ef við getum orðið
einhuga um að skapa friðarríki, verðum við fyrst og
fremst að fjarlægja úr landi okkar allar vítisvélar og
villimennsku og sýna það í verki, að við viljum lifa í friði
við allar þjóðir og að við trúum á góðvild og bræðralag í
öllum samskiptum manna á meðal (43).
„Sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar“ nefnir Árni í sömu grein, þá
baráttu, sem íslensk æska sjöunda áratugarins þurfti að vera
skelegg í að heyja.
Hjörtur E. Þórarinsson á Tjörn setti á blað að beiðni undirrit-
aðs nokkrar minningar um kynni sín af Árna og fara þær hér á
eftir:
49