Skagfirðingabók - 01.01.1985, Page 178
SKAGFIRÐINGABÓK
víst var sums staðar rysjótt aðbúðin. Eg var notaður við alls
konar snúninga, eins og börn yfirleitt á þeim árum, snerist við
fé o. s. frv. Bezta vist hafði ég á Skíðastöðum, Gauksstöðum og
Sævarlandi. Eg átti einnig allgóða vist á Fjalli, en þar var
vinnuharka mikil.
Ég lærði að lesa á hlaupum á þessum bæjum — og kverið. I
Hvammkoti var mér kennt að draga til stafs. Friðbjörn Björns-
son leiðbeindi mér. Hann var sagður nokkuð þverlyndur, en
hann var prýðilega greindur og reyndist mér vel. Eg æfði mig að
skrifa þegar ég var við fé á veturna, páraði með broddstaf í
ísinn. Fermingarveturinn var ég á Hrauni á Skaga og naut þar
þriggja mánaða tilsagnar Stefáns Sigurðssonar, sem var bróðir
Jóhanns á Sævarlandi og var farkennari á Skaganum.
Fólk var talsvert hjátrúarfullt á Skaga, og ég minnist þess, að
Þorgeirsbola var mjög á loft haldið. Eg taldi mig einu sinni hafa
séð djöfsa í hrútslíki á eftir Pétri á Tjörn á Skagaströnd, en boli
átti mikið að fylgja honum. Auðvitað voru fleiri draugar á
Skaga, en enginn þeirra jafnskelfilegur og Þorgeirsboli.
Förumenn komu margir á Skaga. Eg sá Jóhann bera, Gvend
dúllara, Þjófa-Fása og Skinna-Dóra. Hann kom oft og saumaði
skinnbrækur handa bændum að nota við sjó. Yfirleitt var
þessum körlum vel tekið.
Flestir bændur á Skaga áttu bát, fjagramannaför eða sexær-
inga. Sjávarfang var mikilsverð búbót, einkum á vorin ef gaf
fyrir ís.
Eftir fermingu réðst ég vinnumaður til Sigtryggs Jóhanns-
sonar á Hóli á Skaga og var þar vistráðinn 12 ár, til 1920.
Sigtryggur hóf búskap á Hóli árið 1902. Hann var hörkubóndi,
útsjónarsamur og hagsýnn og bætti jörðina stórlega, reisti þar
t. d. ágætt timburhús eftir nokkurra ára búskap. Eins og aðrir
Skagabændur gerði hann út sér til mikillar gagnsemi, enda
ágætur sjómaður. Kona hans var Ingibjörg Sigurðardóttir frá
Fossi.
Fyrsta árið mitt á Hóli hafði ég 80 krónur í kaup auk matar
176