Skagfirðingabók - 01.01.1989, Page 24
SKAGFIRÐINGABÓK
Um Skagann orti hann:
Aldan lagar óð við sand,
angar græna jörðin.
Skaginn eins og blóma band
brosir út við fjörðinn.
Ég lá oft á grenjum með Gunnari á vorin sem vökumaður
og dáðist oft að brögðum hans og hrekkvísi þegar tófur áttu
í hlut. Eldri refaskyttur, sem ég þekkti, skutu tófurnar ætíð
heima á greni, en það var ekkert atriði fyrir Gunnar. Hann
labbaði af stað þegar hann sá þær og hringsólaði um þær
þangað til hann komst í færi. Það tók oft ærinn tíma, en oft-
ast fór það svo, að sú lágfætta féll. En til þess þurfti bæði
þolinmæði og þekkingu.
Ég minnist eins skemmtilegs atviks meðal annarra. Við
lágum þá við á Stapagreni í Neðra-Nes landi, en það er í
brattri urð. Fyrstu nóttina skaut Gunnar grenlægjuna, en
rebbi lét ekki sjá sig. Um miðjan dag sáum við hann þar sem
hann var að snuðra fyrir neðan grenið í smáþýfðum móum
og því illt að komast að honum, en Gunnar var ekki ráða-
laus. Við höfðum grátt gæruskinn meðferðis og sváfum
undir því. Þetta skinn batt Gunnar á bak sér og lagði af stað.
Nú var rebbi lagztur fyrir á moldarbarði og horfði heim á
grenið eins og hann grunaði, að ekki væri þar allt í lagi. Þeg-
ar Gunnar kom á bersvæðið, fór hann að skríða á fjórum
fótum og hafði byssuna undir fótum sér og stanzaði við eins
og hann væri að bíta gras og fór í ótal króka og nálgaðist þó
rebba smátt og smátt. Frá greninu að sjá leit hann út eins og
grá rolla, en nú sá rebbi hann, stökk ofan af barðinu og
horfði á Gunnar dágóða stund yfir barðið. Tófur sjá illa, en
heyrn þeirra og lyktarskynjun er með ólíkindum, svo ekki
þýðir að nálgast þær á bersvæði nema á móti vindi. Gunnar
hélt áfram að skríða og nú kom rebbi aftur upp á barðið og
lagðist þar. Hann hafði látið blekkjast. Afram hélt Gunnar
22