Skagfirðingabók - 01.01.1989, Page 32
SKAGFIRÐINGABÓK
fékk sér minkahund, tók til óspilltra málanna og var mikil-
virkur að vanda. Nokkrum árum síðar hitti ég Gunnar í
Reykjavík þar sem hann var á snöggri ferð. Við tókum tal
saman og ræddum um heima og geima, m.a. spurði ég hann,
hvort minkurinn væri eins skemmtilegur og tófan. Hann
hélt nú ekki, þetta væri nautheimskt kvikindi, sem allir gætu
drepið, jafnvel börn! „Mér þætti gaman að sjá þann mann,
sem dræpi tófu í fullu fjöri með berum höndum, eins og
þeir gera við minkinn," sagði Gunnar, „nei, það getur eng-
inn maður borið virðingu fyrir þessum bölvuðum mink.“
Svo mörg voru þau orð, enda var Gunnar farinn að reskjast.
Hann var þó ungur í anda og jafn léttlyndur og endranær,
en farinn að þreytast eftir kalsamar útilegur á grenjum, og
þess kennir í vísu:
Brostinn streng og flúinn frið
finn og genginn máttinn;
stóð eg lengi lúinn við
lífsins engjasláttinn.
Um miðjan 6. áratuginn fór Gunnar að kenna heilsuleys-
is, en þráaðist við að leita læknis. Síðsumars 1958 fór hann
til læknis og var upp úr því sendur suður til frekari rann-
sókna. Hann var lagður inn á Landsspítala og skorinn upp,
lá þar nokkra mánuði, en fékk enga bót, þjáðist af krabba-
meini. Um áramót var hann fluttur norður á sjúkrahús
Skagfirðinga og lézt þar seinni part vetrar. Hann var borinn
til grafar með hækkandi sól, og grafskrift hans hefði vel get-
að verið þetta erindi úr einu kvæða hans:
Nú svífur blær úr suðurátt
og signir fjöll og dal,
ég hlusta á fossins hörpuslátt
í háum gljúfrasal.
30