Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2011, Page 110
Þannig geti prestar og starfsfólk kirkjunnar miðlað nálægð Guðs og stuðlað
að bata þolandans.33
Eitt það erfiðasta sem prestur stendur frammi fyrir á samúðarstiginu
er reiði þolandans. Reiðin er fyrst og fremst tákn um heilbrigð viðbrögð,
segir Fortune. Kristið fólk höndli þó illa reiðitilfinningar því reiðin sé talin
ókristileg, ekki síst fyrir konur. Reiði sé því oft bæld og komi seint upp á
yfirborðið. Prestar geta, að mati Fortune, verið mjög hjálplegir með að beina
reiðinni í réttan farveg. Byrja megi á því að tala um hvað sé réttmæt reiði.
Réttmæt reiði, segir Fortune, er réttmætt andsvar við óréttlátum aðstæðum.
Reiði Jesú í musterinu var réttmæt (Jóh.2.14-22). Reiði er líka réttmæt
gagnvart kynferðislegu ofbeldi, bæði hjá börnum og fullorðnum. Prestar
eigi því að leyfa fórnarlömbum að tjá reiði sína án þess að þau finni til
sektarkenndar. Hefnd, hins vegar, sé ekki það sama og réttlát reiði. Hefnd
eyðileggi möguleika á ferli réttlætis og verði auðveldlega sjálfstortímandi.
Reiðin beinist oft að Guði, heldur Fortune áfram. Ekki sé þó ráðlegt að
slá á þá reiði, heldur leyfa henni einnig að koma fram. Það geti létt mjög
á reiði viðkomandi. Þá beinist reiðin oft að fjölskyldunni og vinum og
líka gegn prestinum og kirkjunni. Það er óþarfi að taka þá reiði of mikið
inn á sig, segir Fortune, en jafn nauðsynlegt að reyna að beina henni í
réttan farveg, nefnilega að þeim sem ber ábyrgð á verknaðinum. Það eigi
að viðurkenna reiðina en ekki leyfa henni að skaða aðra. Ekki heldur
fórnarlambið sjálft en það gerist of oft að fórnarlömb ráðast á sjálf sig og
skaða á hræðilegan hátt (t.d. með því að skera sig). Að beina reiðinni á
réttan stað, þ.e. að orsökum þjáningarinnar, sé afgerandi ef fórnarlambið
á að ná bata. Með góðri þekkingu á málefninu geta prestar orðið mjög að
liði hér, at mati Fortune. Orsakirnar þjáningar þolandans geta þó verið
allnokkrar. Ein sé gerandinn sjálfur, sá sem beitti fórnarlambið ofbeldi, en
einnig kirkjan og kerfið sem brugðust hlutverki sínu að aðstoða. I versta
falli urðu þeir aðilar þess valdandi að varpa sök á þolandann. Allt þetta
nefnir Fortune en telur þrátt fyrir allt að með skynsamlegri hjálp sé það
mögulegt að aðstoða fórnarlambið við að beina reiði sinni í réttan farveg,
þ.e. að þeim aðilum sem eiga að sæta ábyrgð vegna þjáninga viðkomandi.
Þetta sé hins vegar einungis hægt ef til þess fáist víðtækur stuðningur,
s.s. frá vinum, fjölskyldu, kirkju og samfélagi. Þótt Fortune fjalli mikið
um reiðistigið leggur hún á það ríka áherslu að það sé aðeins eitt skref í
33 Fortune, Marie M. 2005. Sexual Violence, bls.151.
108