Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2011, Page 146
ævi Hallgríms hafa greint frá því að Hallgrímur hafi verið rekinn úr skóla
vegna níðvísna sem hann orti um Halldóru Hólafrú og Arngrím lærða. Ekki
er vitað hvenær það gerðist eða með hvaða hætti Hallgrímur komst um borð
í skip sem sigldi til Glúckstadts. Steinunn gefur sér að það hafi gerst um
jólaleytið 1627 og hann komist um borð í danskt skip sem af tilviljun kom
þá í Skagafjörð. Sú skipskoma tengdist Tyrkjaráninu að vissu leyti og þannig
fléttast örlög Hallgríms og Guðríðar saman í lok bókarinnar. I sambandi
við brottför Hallgríms nefnir Steinunn tvennt til sögunnar sem vísar til
framtíðar Hallgríms sem skálds. Annað atriðið er skilnaðargjöf föður hans
sem rétti honum bókina sem honum var svo kær, Eintal sálarinnar, og síðar
átti eftir að hafa mikil áhrif á Hallgrím og Passíusálma hans. Hitt atriðið er
ferðasálmurinn „Ég byrja reisu mín, Jesú, í nafni þín“ sem Steinunn lætur
Hallgrím fitja upp á þegar hann stígur á skip. Kveikjan að upphafi sálmsins
eru bænarorð sem amma hans, sem Steinunn nefnir Steinunni, mælti fyrir
honum þegar hann kvaddi hana: Farir þú, þá farðu í Jesú nafni. Með þessu
niðurlagi tengir höfundurinn með beinum hætti við líf Hallgríms siði
sem Steinunn hefur áður lýst í leikritinu Heimur Guðríðar. Það er fráfall
Steinunnar dóttur þeirra hjóna sem Hallgrímur orti eftir harmljóðin sem
að mati Steinunnar gerðu hann að sálmaskáldi.
I eftirmála lýsir Steinunn tildrögum verksins og þar kemur fram að
undirliggjandi spurning hafi verið: Hvað gerði þennan dreng að skáldi? Þar
greinir Steinunn frá niðurstöðu finnskrar könnunar á því hvað gerði fólk
að rithöfundum þar sem nefnd voru þrjú atriði: 1) Aðgengi að bókum í
æsku, 2) persónuleg kynni af skáldi eða rithöfundi og 3) trámatísk reynsla
eða áfall sem kallaði á úrvinnslu í frásögn. Steinunn leitast við að skoða líf
drengsins Hallgríms með þessi þrjú atriði í huga. Hún telur að á bernsku-
heimili hans hafi verið aðgengi að bókum og lætur hún hann læra að lesa
af Vísnabók Guðbrands. Eftir að hann var kominn til Hóla jókst aðgengi
hans að bókum mjög og þar hafði hann auk þess kynni af mestu andans
mönnum samtíma síns. Þá telur hún að Hallgrímur hafi orðið fyrir harm-
þrunginni reynslu annars vegar þegar hann þurfti að yfirgefa æskuheimili
sitt eftir lát afa síns og varð að fylgja föður sínum til Hóla. Viðskilnaðurinn
við systkini hans var algjör þar eð yngri systkini Hallgríms ílentust í Gröf
hjá ömmu sinni og föðurbróður sínum og fjöiskyldu hans. Hins vegar gefur
Steinunn sér að móðir Hallgríms hafi látist af barnsförum eftir að feðgarnir
voru komnir heim að Hólum og hafi Hallgrímur ekki frétt andlát hennar
fyrr en eftir að hún var grafin. Því til viðbótar lendir Hallgrímur í ónáð hjá
144