Ráðunautafundur - 15.02.1995, Blaðsíða 229
221
Næringarefni koma inn í búið fyrst og fremst á tvo vegu. Annars vegar með tilbúnum
áburði og hins vegar með aðkeyptu fóðri. Væri um það að ræða að skepnur væru keyptar frá
öðrum bæjum þá er það auðvitað einnig flutningur á efnum inn í búið, en við reiknum með
búið sé sjálfu sér nægt varðandi viðhald bústofns. Þess ber einnig að geta að eitthvað af
köfnunarefni berst til jarðar með regni, en það magn er áætlað innan við 1 kg/ha á ári skv.
mælingum Veðurstofu íslands (Magnús Óskarsson og Matthías Eggertsson 1991). í þessu
dæmi reiknum við ekki með því að belgjurtir séu til staðar og því engin köfnunarefnisvinnsla
af þeirra völdum.
Út úr búinu fara næringarefnin með afurðum. í þessu tiltekna dæmi fara 86 545 lítrar
mjólkur til manneldis á ári. Eru heimanot þar meðtalin. Kjötframleiðsla á þessu búi er 2345 kg
á ári, og lifandi þungi slátraðra gripa er þá 4989 kg alls miðað við að kjöthlutfall sé 47%. Skv.
sænskum gögnum er efnainnihald í mjólk 0,53% N, 0,1% P og 0,16% K og í vefjum lifandi
grips er efnainnihaldið 2,50% N, 0,74% P og 0,17% K (Britta Fagerberg o.fl. 1993). Út frá
þessum tölum er svo reiknað út heildarefnainnihald í afurðum þeim sem frá búinu eru seldar.
Skv. þessum útreikningum fara út úr búinu með afurðum 16 kg af N, 3 kg af P og 4 kg af K á
hvem hektara ræktaðs lands.
Auk heimaaflaðs fóðurs er gefið nokkuð af fóðurbæti, samtals 312 kg af fiskimjöli og
16 530 kg af H-blöndu. Efnamagn sem kemur inn í búið með þessu móti er reiknað út frá
magni fóðursins annars vegar og hins vegar út frá efnagreiningum á fiskimjöli (Handbók
bænda 1985) og upplýsingum um efnamagn í H-blöndu frá framleiðendum (MR og KB). Ef
þessu efnamagni er deilt niður á hektara ræktaðs lands á búinu kemur í ljós að þama er um að
ræða 16 kg N, 5 kg P og 2 kg af K á hektara.
Samkvæmt þessu kemur álíka mikið af næringarefnum inn í búið með aðkeyptu fóðri
eins og fer út með afurðum. Ef næringarefnin nýttust fullkomlega mætti því nánast láta dæmið
ganga upp án frekari ráðstafana (t.d. kaupa á tilbúnum áburði). En raunveruleikinn er ekki
svona. Áætla má að bú á borð við þetta kaupi tilbúinn áburð sem nemur um 100 kg N, 20 kg P
og 25 kg af K á hektara (María G. Líndal 1995). Það er því ljóst að nýting næringarefnanna er
ekki góð og spumingin er hvemig úr megi bæta.
í 1. töflu er leitast við að reikna út svokallað næringarefnajafnvægi búsins, en þá er
fundinn mismunur á þeim efnum sem berast að í búið og þeim efnum sem fara frá búinu á
formi afurða. Fróðlegt hefði verið að reikna út næringarefnajafnvægi jarðvegsins en þar skorti
verulega á upplýsingar til að svo mætti gera með góðu móti.