Milli mála - 01.06.2016, Blaðsíða 189
MARGRÉT JÓNSDÓTTIR
Milli mála 8/2016 189
Júdit er sjaldgæft nafn. Eignarfallið er annaðhvort táknað með -ar
eða er endingarlaust; engin (örugg) dæmi eru um s-eignarfall. En
dæmið um þessi tvö nöfn er glöggur vitnisburður þess sem áður
sagði að beygingin er ekki alveg augljós.
4.2 Samantekt
Skipta má nöfnunum Rut, Inger, Dagmar, Rakel, Bóel og Júdit í hópa.
Nöfnin Inger og Dagmar falla í hóp með Esterarnafninu enda geta
þau öll myndað eignarfall með -ar, -s eða verið endingarlaus rétt
eins og Ester. Vissulega er ar-endingin sú langalgengasta í öllum
tilvikum. Öll nöfnin hafa verið og geta enn verið endingarlaus í
eignarfalli. Nöfnin Rakel og Rut mynda eignarfall með -ar eða eru
endingarlaus. Dæmin um s-eignarfall eru hins vegar gömul eða
vafasöm á ýmsan hátt. Um nafnið Bóel eru engin dæmi um s-eignar-
fall en um Júdit er slíkt dæmi ekki öruggt. Bæði nöfnin mynda hins
vegar eignarfall með -ar eða -Ø.
Nöfnin Ester, Inger, Rakel, Bóel og Júdit eru öll tvíkvæð og hafa
yfir sér framandi svip vegna áherslulausa atkvæðisins sem minnir á
viðskeyti. Hugsanlega veldur sá þáttur erfiðleikum í beygingu.
Hvort ástæðan er sú að ekki komi fram nægar upplýsingar um
kynið er erfitt að fullyrða. En karlmannsnöfn sömu gerðar eru til,
sbr. Lúter og Daníel.32 Það blasir ekki við hvers vegna beyging
Dagmararnafnsins hefur flækst fyrir. Nafnið lítur út eins og hvert
annað samsett orð. Sérstaklega ber þá að nefna nokkur eiginnöfn
karla.33 Eina sem gæti skýrt hegðun Rutarnafnsins er það að nafnið
er erlent. Sú skýring er þó haldlítil.
Umfjöllunin hér á undan hefur varðað örfá nöfn, öll tökunöfn,
32 Karlmannsnöfnin Daníel og Jóel eru sömu gerðar. Því er svo við að bæta að í BÍN er nafnið Abel
beygt jafnt sem karlmanns- og kvenmannsnafn. Nafnið Abel er ekki á lista yfir leyfð nöfn kvenna.
Í Íslendingabók er ein kona skráð með nafnið sem annað nafn en því er sleppt í þjóðskrá. Og sam-
kvæmt Guðrúnu Kvaran og Sigurði Jónssyni frá Arnarvatni (1991:89) var nafnið kvenmannsnafn
hér á fyrri öldum. Í skrám er ein kona með Marel að öðru nafni en í BÍN og annars staðar er Marel
beygt sem karlmannsnafn. Þess má geta að nöfnin Abel og Marel eru á skrá yfir millinöfn.
33 Mar er skráð eiginnafn karlmanns, sjá https://www.island.is/mannanofn/. Það er líka hluti sam-
setts nafns, sbr. t.d. nöfnin Sigurmar og Þor-/Þórmar. Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá
Arnarvatni (1991:590) gefa beyginguna Sigurmars, Þor-/Þórmars; Mar er ekki sjálfstætt nafn. Í
Stafsetningarorðabókinni (2006:365) er Mar í eignarfalli Mars. Þekktur Íslendingur, nú látinn, bar
ættarnafnið Mar og hafði í eignarfalli Marar. Þormar er hvort tveggja, eiginnafn og ættarnafn.
Nöfnin Mar og Þormar eru á ættarnafnaskrá, sjá http://www.arnastofnun.is/page/aettarnofn_a_isl-
andi