Milli mála - 01.06.2016, Blaðsíða 223
SVAVAR HRAFN SVAVARSSON
Milli mála 8/2016 223
inn, og flutninginn sjálfan hvarf mönnum snemma sjónum.17
Ólympíuleikarnir nutu mestrar virðingar og hafa varðveist 14
Ólympíudrápur eftir Pindar. Sem fyrr segir tilheyrðu sigurvegar-
arnir, og kaupendur kvæðanna, valdafjölskyldum og aðli á Grikklandi
hinu forna; efnistökin voru sniðin að heimsmynd þeirra. Pindar fékk
vel greitt fyrir list sína, að eigin sögn (Pýþísk drápa 1.90).
Lengri drápurnar eru oft þrískiptar. Upphafið og niðurlagið er
iðulega lofgjörð um sigurvegarann, borg hans, ætt og ágæti, tengsl
hans eða borgarinnar við guðdóminn. Miðkaflinn hefur oft að
geyma goðsögn sem tengist borg sigurvegarans. Gert er ráð fyrir
þekkingu á goðsögninni, enda aðeins greint frá hlutum hennar; hér
eru bútar úr stærri sögum, sem innihalda sláandi smáatriði. Það er
eins og skáldið lýsi smásmyglislega örlitlum fleti gríðarstórrar
myndar sem hann telur alla þekkja til hlítar. Annað einkenni á
skáldskap Pindars er að hann tekur siðferðilega afstöðu til atburða
og frásagna. Þessi afstaða endurspeglar hugmyndir aristókratíunnar,
ekki lýðsins. Loks má oft finna nokkur orð um flutning drápunnar
og skáldið sjálft.
Málfar Pindars lét jafnvel einkennilega í eyrum samtíðarmanna
hans, enda reyndist það torskilið frá fyrstu tíð. Það er einkenni á
kveðskapnum að skáldið skiptir oft skyndilega um efni, hættir við
efni í miðjum klíðum, eins og því detti eitthvað nýtt í hug (sjá t.d.
Ólympska drápu 1.128-35). Þessi aðferð gefur til kynna að skáldið
yrki á staðnum, eftir innblæstri. Annað einkenni er tíð notkun á
myndhvörfum, stundum blönduðum, og alls kyns samlíkingum
(svo sem í upphafi fyrstu ólympísku drápunnar). Tiltekið orð eða
hugmynd ræður stundum ríkjum innan einstakra drápna, eins og
hugmyndin um át gerir í fyrstu ólympísku drápunni. Einnig mætti
nefna svokallað priamel, algengt stílbragð hjá grískum skáldum,
sem er t.d. notað við upphaf fyrstu ólympísku drápunnar. Fyrst eru
talin upp dæmi (tvisvar eða þrisvar) sem verða bakgrunnur megin-
efnisins. Orðaröð er æði flókin og mikið kveður að notkun á marg-
17 Flestar eru drápurnar samdar í þrenndarformi þar sem skiptast á strófa, andstrófa, eftirdrápa, þótt
sumar séu erindarunur. Algengasti hátturinn er svokallaður dactylo-epitritus, sem sameinar daktýl
(−∪∪, oft sem hálfa hexameturslínu −∪∪−∪∪−) og epitrítus (−∪−−). Hinn algengi háttur-
inn er æólskur, mest samsettur úr jömbum og kórjömbum (∪− og −∪∪−). Málið sjálft er að
miklu leyti tilbúið skáldamál, samsetningur úr epísku skáldamáli Hómers, dórísku og æólsku.