Milli mála - 01.06.2016, Blaðsíða 297
MICHEL DE MONTAIGNE
Milli mála 8/2016 297
Hvað sem þeir segja þá er unaður hinsta takmark okkar í dyggðinni
sjálfri. Ég nýt þess að láta þetta orð, sem þeir hafa svo mikla óbeit
á, dynja á eyrum þeirra. Og ef það vísar til dýpstu ánægju og ríku-
legrar hamingju er það dyggðinni að þakka frekar en nokkru öðru.
Þótt ánægjan sé frískleg, þróttmikil, karlmannleg og kröftug er
hún einfaldlega enn ánægjulegri. Og við hefðum átt að kalla dyggð-
ina ánægju, sem á betur við, er eðlilegra og mildara; ekki því nafni
dugnaðar sem við gáfum henni.5 Ef hin ánægjan eða unaðurinn,
sem er óæðri, hefur fengið þetta fallega nafn ætti það að vera um-
deilt en ekki af því hún hefur rétt á því. Mér finnst meira um fyrir-
stöður og hindranir þar en í dyggðinni. Burt séð frá því að bragð
hennar er hverfulla, ógreinanlegra og veikara þá á hún sér sínar
vökur, föstur, erfiði, svita og blóð, og umframt allt sína sterku og
margbreytilegu hughrif, og, við hlið sér, svo þungbæra mettun að
hún jafnast á við iðrun og yfirbót. Það er rangt hjá okkur að halda
að þessar hindranir þjóni hlutverki hvata og bragðbætis á sætleika
hennar, þar sem andstæða verður skarpari af andstæðu sinni í nátt-
úrunni, og að segja, þegar við fjöllum um dyggðina, að slík eftir-
köst og erfiðleikar geri hana óvægna og óaðgengilega þegar það
göfgar hana, skerpir og upphefur hina fullkomnu guðlegu ánægju
sem hún færir okkur mun frekar en þegar unaður á í hlut. Sá er
sannarlega óverðugur því að kynnast henni sem mælir og vegur verð
hennar við ávöxtinn og þekkir hvorki fegurð hennar né notagildi.
Þeir sem fræða okkur um að hættulegt og erfitt sé að leita hennar
en ljúft að njóta hennar, hvað eru þeir að segja okkur annað en að
hún sé ávallt ógeðfelld? Því hvaða mannlegt meðal hefur nokkru
sinni gert einhverjum kleift að njóta hennar? Þeir fullkomnustu
hafa látið sér nægja að þrá hana og nálgast án þess að komast yfir
hana. En þeir hafa rangt fyrir sér: vegna þess að sjálf leitin að allri
þeirri ánægju sem við þekkjum er ánægjuleg. Eiginleikar þess sem
leitað er setja svip sinn á leitina vegna þess að þeir eru stór hluti
hennar og óaðskiljanlegur. Hamingjan og sælan sem ljóma í dyggð-
inni fylla allt sem er hluti af henni og leiðir til hennar, að fyrsta
inngangi og ystu tálmum. Og einn helsti ávinningur hennar er
fyrirlitning á dauðanum, sem er leið til að færa lífi okkar hægláta ró
5 Hér virðist Montaigne styðjast við þá skýringu Cicero (Tusculanae disputationes, II, 18) að orðið
virtus ‘dyggð’ sé dregið af vis ‘ofbeldi’, ‘kraftur’. Þessi orðskýring er ekki viðurkennd í dag.