Milli mála - 01.06.2016, Blaðsíða 228
GRÍMUR THOMSEN OG FRAMANDGERVING PINDARS
228 Milli mála 8/2016
taldi að forngrísk bókmenntaverk væru svo merkileg að þau verð-
skulduðu lestur – en það yrði að vera lestur á forngrískum textum.
Skilningur krefðist frummálsins og þýðingarnar áttu að vera hvatn-
ing til að lesa textana á forngrísku, enda ætti alls ekki að leggja
niður kennslu í málinu. Markmið Gríms var ekki að gera ljóðin að
hluta af íslenskum bókmenntum. Þvert á móti vildi hann fá landa
sína til að kynnast upprunatextanum, færa Íslendinga til Forngrikkja.
Þetta vildi hann gera með því að gefa Íslendingum kost á innsýn í
forngrískan bókmenntaheim, þótt sú sýn hlyti að vera takmörkuð.
Grímur tjáir sig eilítið um þýðingaraðferðir. Hann segist hafa
ætlað að láta fylgja þýðingar úr Ilíonskviðu Hómers, eða Ilíonsdrápu,
eins og hann kallar verkið, en bætir við:
...það er hvorttveggja að þessi drápa er Íslendíngum áður kunn, enda fann
eg brátt, að það er ekki mitt meðfæri, að þýða drápur – Hómers, eins og
þær ættu að þýðast, sem sé orðrétt og í bragarhætti frumkvæðisins. Með því
einu móti getur andi Hómers haldið sér. Að öðrum kosti breytist hinn
þungi og lygni straumur, sem einkennir bæði Ilíons og Odysseifsdrápuna.
Þýðing Svb. Egilssonar á hinni síðari í óbundinni ræðu skal því reynast
betri og skyldari frumkvæðinu, enn nokkur sú þýðing, sem yfirgefur sex-
stuðla bragarháttinn (hexametrum), þótt í bundinni ræðu sé. Alt öðru
máli er að gegna með lýriskan kveðskap enn söguljóðin, hinn episka kveð-
skap; hinn fyrri þolir stórum betur að breytt sé útaf bragarhætti.22
Grímur útskýrir ekki hvernig stendur á þessum mun, að epískan
kveðskap verði að þýða í sama bragarhætti, en ekki lýrískan, sem
megi þýða með öðrum bragarhætti. Ekki er heldur ljóst hvort
krafan um orðrétta þýðingu eigi aðeins við um epískan skáldskap.
Áður hafði hann sagst hafa þýtt lýrískan kveðskap frítt. Það mætti
hæglega ráða af orðum hans að því frírri sem þýðingarnar séu, þeim
mun fjarlægari séu þær frumkvæðunum enda er það skiljanlegt við-
horf. Einnig virðist hann halda að þrátt fyrir þennan ágalla – þetta
gengisfall í flutningum á milli tungumála – voni hann að fegurðar-
andinn haldi sér og að lesendur nái að skynja hann. Hann útskýrir
einnig í löngu máli hvers vegna hann þýði mest eftir Evripídes af
grísku harmleikjaskáldunum og nefnir einkum tvennt. Annars
22 Grímur Thomsen (1895: iv-v).