Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 41
40
Þetta eru mennirnir, Kríton minn, sem Pródikos segir að séu á mörk-
um þess að vera heimspekingar og stjórnmálamenn (μεθόρια
φιλοσόφου τε ἀνδρὸς καὶ πολιτικοῦ), og þeir telja sig vera vitrasta af
öllum. ... Þeir telja sig vera mjög vitra, af einhverri ástæðu. Því þeir
hafa hæfilega mikið af heimspeki og hæfilega mikið af stjórnmálum
(μετρίως μὲν γὰρ φιλοσοφίας ἔχειν, μετρίως δὲ πολιτικῶν).
Verkið er skrifað af Platoni, væntanlega snemma á 4. öld og áður en Platon
fer í alvöru að eigna sér og skilgreina filosofía.46 Pródikos er hér hugsanlega
að gagnrýna Ísókrates (Pródikos á að hafa verið kennari hans) en einnig
gæti Platon verið að leggja Pródikosi þessi orð í munn og þá jafnvel sem
gagnrýni á Ísókrates og gagnrýni hans á filosofía. Um þetta getum við ekki
verið viss – við höfum engar aðrar heimildir fyrir því hvað Pródikos gæti
hafa sagt um fólk sem finnur sig á mörkum heimspeki og stjórnmála.47
Að lokum er verkið Dissoi logoi (Tvöföld rök) (DK90; G19B), sem er
sýnibók um hvernig færa má sannfærandi rök með og á móti hverju sem
er. Verkið er varðveitt án höfundar en virðist tilheyra einhverjum sófist-
anna og geta verið frá því um aldamótin 400 – þó það gæti líka verið yngra.
Fyrsti kafli fjallar um gott og vont og byrjar með staðhæfingu um að meðal
þeirra sem leggja stund á heimspeki (ὑπὸ τῶν φιλοσοφούντων) sé deilt um
hvað sé gott og vont (i, 1). Í níunda og síðasta kafla (iX, 1) er því haldið
fram að minni sé gott bæði fyrir heimspeki og aðra visku (ἐς φιλοσοφίαν
τε καὶ σοφίαν).
Enginn af þessum textum sýnir að filosofía hafi verið notað um afmark-
aðan hóp eða skilgreinda aðferð við að öðlast þekkingu eða visku – reyndar
kemur orðið filosofía varla fyrir í þessum textum heldur sögnin filosofeo
og nafnorðið (eða lýsingarorðið) filosofos. Hins vegar er ljóst, og verður
enn skýrara á eftir þegar við skoðum kafla úr hippokratíska verkinu Um
læknislist til forna, að þegar um aldamótin 400 var filosofía komið í umferð
46 Verkið er talið vera eitt af elstu verkum Platons. Það er ekki fyrr en seinna að Platon
leggur áherslu á skilgreiningu heimspeki og þá undir nafninu φιλοσοφία. Sjá kafla
2 í Andreu Wilson Nightingale, Genres in Dialogue.
47 „This reference seems to be a veiled assessment of isocrates’ project.“, bls. 801 í
Texts of Early Greek Philosophy, ritstj. Daniel W. Graham. Sjá líka Robert Mayhew,
Prodicus the Sophist. Texts, Translations, and Commentary, Oxford: Oxford University
Press, 2011. Mayhew telur enga leið að meta út frá þessari heimild hvað Pródikos
sjálfur taldi um efnið, sjá bls. 147. Bæði DK og G telja feitletruðu orðin koma frá
Pródikosi sjálfum og merkja textann þannig í útgáfum sínum. Ég tel mjög hæpið
að álykta sem svo.
eiRíkuR smáRi siguRðaRson