Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 42
41
sem orð yfir lærdóm eða einhvers konar ástundun þekkingarleitar sem
sumum þótti eftirsóknarverð en aðrir fyrirlitu. Það vekur líka athygli, og
þetta á bæði við um historía og filosofía, að sagnorðsmyndir orðanna virðast
algengari framan af. Nafnorðin ná fótfestu seinna.
V
Í fjórum mikilvægum textum frá 5. og 4. öld er hugtökunum historía og filo-
sofía spilað saman á ýmsan hátt. Textarnir eru eitt af brotum Herakleitosar,
kafli úr verkinu Um læknislist til forna (VM), kafli úr Fædoni Platons og að
lokum kafli úr Um skáldskaparlistina (Poet) eftir Aristóteles. Textarnir varpa
allir ljósi á hvernig þessi hugtök mótuðust og meitluðust í samspili hvort
við annað.
Í fyrsta textanum eru það reyndar ekki historía og filosofía sem koma
saman heldur histōr annars vegar og menn sem eru filosofoi hins vegar, þ.e.
heimspekilegir menn eða menn sem þrá visku. Brotið, sem er varðveitt
hjá guðfræðingnum og kirkjuföðurnum Klemensi frá Alexandríu (2. öld
e.o.t.), er svona (DK22Β35; G32[F19]):
Því samkvæmt Herakleitosi er mjög nauðsynlegt mönnum sem
þrá visku (φιλοσόφους ἄνδρας) að vera rannsakendur margra
hluta (πολλῶν ἵστορας).
Þetta brot er um margt athyglisvert og vil ég nefna þrennt. Í fyrsta lagi:
Þetta er ekki bein tilvitnun og það er með öllu óvíst og raunar mjög
umdeilt hversu mikið af því sem Klemens heldur fram komi orðrétt frá
Herakleitosi. Sérstaklega er deilt um hvort filosofoi andres (menn sem
þrá visku) sé haft eftir Herakleitosi eða ekki. Áherslan er greinilega á að
einhverjir séu „rannsakendur margra hluta“.48 Í öðru lagi: Ef við teljum
orðin filosofoi andres koma frá Herakleitosi þá virðist merkingin vera frekar
almenn og eiga við um þá sem þrá visku í einhverjum óljósum skilningi.
Hann er ekki að tala um ákveðinn hóp sem kallar sig eða má kalla filosofoi
(hvernig svo sem við berum kennsl á eða skilgreinum hann) í þessu broti.
48 Flestir útgefendur telja að φιλοσόφους ἄνδρας komi frá Herakleitosi sjálfum.
Helsta undantekningin er Miroslav Marcovich, Heraclitus. Greek text with a short
commentary, 2. útg., Sankt Augustin: Academia Verlag, 2001. Hann fylgir hins vegar
langri og magnaðri hefð frá Wilamowitz, Deichgräber, Reinhardt og Burkert (sjá
tilvísanir í sama riti bls. 27) sem allir hafa fært rök fyrir því að φιλοσόφους ἄνδρας
komi frá Klemensi.
Í LJÓSi SöGU OG HEiMSPEKi