Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 67
66
Menn mega ekki skilja dæmin sem hér hafa verið nefnd sem ábend-
ingu um að viðtök hljóti að vera víðtæk, spanni heilu vísindagreinarnar á
tilteknum tímaskeiðum. Kuhn leggur áherslu á að sérstakt viðtak geti ríkt
í lítilli undirgrein vísinda og byltingar varði stundum fáeina vísindamenn,
jafnvel ekki fleiri en tuttuguogfimm. Byltingar séu oft hljóðlátar, vísinda-
menn taki stundum varla eftir þeim.72
Tökum nú saman það sem sagt hefur verið um viðtök, venjuvísindi o.fl.:
Viðtakið er að mati Kuhns þungamiðja vísindanna, sérhvert viðtak hafi sitt
„sett“ af reglum og aðferðum.73 Virkni og skóladæmi skipti meira máli
fyrir viðtakið en sértækar kenningar og pottþéttar skilgreiningar, skóla-
dæmin komi að miklu leyti í staðinn fyrir reglur. Venjuvísindamenn séu
hópdýr, umburðarlyndi sé ekki þeirra sterka hlið, samanber það sem áður
segir um að þeir minni á meðlimi trúflokka. Svo leysist viðtökin upp, skeið
gagnrýninna byltingarvísinda hefjist. Hjakk og smáatriðanostur venjuvís-
indamanna séu forsendur vísindabyltinga. Venjuvísindamenn eru eins og
lággróðurinn sem gerir stóru trjánum (byltingarvísindamönnum) kleift
að vaxa.74 Þó finna megi einhver algild vísindarök þá hafi sérhvert viðtak
sitt sett af rökum, sitt sett af staðreyndum og sinn mælikvarða á gæði
rökfærslu. Ágæti vísindalegrar rökfærslu er því að verulegu leyti afstæð við
viðtök. Viðtökin eru ósammælanleg.
Hinn síðari Kuhn
Eftir útkomu Vísindabyltinga tók Kuhn að endurskoða kenningar sínar og
fága á ýmsa lund. Hann viðurkenndi að „viðtak“ væri helst til óskýrt hug-
tak, jafnvel haldið slæmum röklegum kvillum. Til dæmis væri „samfélag
vísindamanna“ skilgreint sem „samfélag þeirra sem beita sama viðtakinu“,
„viðtak“ svo skilgreint sem „það sem samfélag vísindamanna beitir“. Þetta
er hringskilgreining og svoleiðis lagað þykir ekki par fínt í heimi fræð-
anna.75 Þá tók Kuhn að tala um „fræðafylki“ (e. disciplinary matrix) og virð-
ist kannski í fljótu bragði sem það hugtak komi í stað viðtaks-hugtaksins en
72 Thomas Kuhn, The Structure of Scientific Revolutions, bls. 49–50, bls. 136–143, bls.
176–181, Thomas Kuhn, Vísindabyltingar, bls. 144–145, 281–293 og 355–365.
73 Thomas Kuhn, The Structure of Scientific Revolutions, bls. 109, Thomas Kuhn, Vís-
indabyltingar, bls. 239.
74 Þetta er mín myndlíking.
75 Thomas Kuhn, „Second Thoughts on Paradigms“, The Essential Tension, Chicago:
Chicago University Press, 1977, bls. 293–319, hér á bls. 294–295.
steFán snævaRR