Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 84
83
Suramarit, aftur. Hann er framliðinn, en líður milli andstæðra valdakjarna
í leikritinu, kemst allt og hefur aðgang að öllum hvort sem þeir eru á
valdasvæði Rauðu khmeranna eða Kínverja. Suramarit kemur ekki aðeins
fyrir sem eiginleg vofa eða draugur – hann er bæði látinn og viðlátinn.
Þrátt fyrir að vera látinn hefur hann líkamlega nærveru í gegnum leik-
arann sem fer með hlutverkið og leitast við að setja mark sitt á atburða-
rásina, líkt og vofa föður Hamlets sem ákallar son sinn: „Hamlet, mundu
mig“. Minningin vekur hina dauðu til lífsins. Þannig gengur hann aftur í
bókstaflegri merkingu, kemur til þess að aðhafast og breyta og tekst það
sem flesta dreymir um: að fara gegnum dauðann lifandi.
Suramarit er ekki konungur í leikritinu, þótt hann hafi gegnt þeirri
stöðu í lifanda lífi á 6. áratugnum. Cixous breytir sögunni og lætur móður
Sihanouks, Kossomak, taka yfir sem þjóðhöfðinga eftir að Sihanouk lætur
af konungsdómi. Í lok leikritsins þegar Sihanouk hefur ekki lengur þrótt til
að halda áfram baráttunni fyrir fullveldi Kambódíu er það Suramarit sem
leiðir gönguna miklu frá „landinu góða“ í útlegð. Þarna verða þáttaskil í
sögu þjóðarinnar og um leið skapast þörf fyrir að minnast gegnum skrifin:
að halda sögu, tungumáli og menningu Kambódíu á lífi.
Afturgangan Suramarit táknar með þessum hætti leikhúsið sjálft, stað
minninga og endurupplifana. Auk þess hefur hann víðtækar skírskotanir
bæði í leikhússöguna sem og í skáldverk og skáldævisögur Cixous sjálfrar
þar sem faðir hennar, en hann dó úr berklum þegar hún var aðeins 12 ára,
gegnir sambærilegu hlutverki. Eins og Cixous orðar það í texta um leik-
rit sín er hann: „Ferjumaður, faðir og samtímamaður dauðra og lifandi,
verndari, fóstra, hinn sanni konungur leikhússins, sá sem nemur úr gildi,
þegar hann gengur inn á sviðið, átökin milli goðsagnarinnar og raunveru-
leikans“.16
Áhugi Cixous á sögulegri nákvæmni ljær hinni pólitísku frásögn meiri
þunga án þess þó að það komi niður á sköpunarkrafti Sihanouk. Það að
beina athyglinni að sögulegum smáatriðum er í fullu samræmi við áherslu
Cixous sem leikskálds og rithöfundar á smæstu einingar tungumálsins:
hljóma, orðhluta eða orðin sjálf. Þannig notar hún sömu nálgun hvað
varðar söguna í skrifum sínum fyrir leikhús og á tungumálið í öðrum verk-
um sínum. Hún útskýrir það svo í viðtali um leikritið:
16 Hélène Cixous, „De la scène de l’inconscient à la scène de l’Histoire“, Hélène
Cixous, chemin d’une écriture, ritstj. Françoise van Rossum-Guyon og Myriam Díaz-
Diocaretz, Amsterdam: Rodopi, 1990, bls. 15–34, hér bls. 29–30.
STJÓRNMÁL MiNNiNGA