Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Side 102
101
líkamlegar athafnir, s.s. siði, hegðun og líkamsstöðu. Assmann segir það
spanna u.þ.b. 80 til 100 ár, eða þann tíma sem kynslóðir geta deilt saman
og haft víxlverkandi áhrif hver á aðra. Sem dæmi má nefna kynslóðir sem
lifa tiltekna atburði og deila minningum um þá. Þær minningar hverfa á
náttúrulegan hátt þegar einstaklingar kynslóðanna deyja.
Menningarlegt minni hefur aftur á móti meiri tímadýpt en samskipta-
minni og vísar í fjarlæga fortíð. Það er ekki bundið við afmarkaðan hóp
lifenda og hverfist síður um hversdagslega þekkingu og félagslega færni.
Það er umfram allt háð miðlum, miðlaðri framsetningu og hlutgervingu.4
Menningarlegt minni er félagslega samsett og þjónar þeim tilgangi að
skapa einingu og sjálfsvitund hjá ákveðnum menningar- og þjóðfélags-
hópum. Menningarlegt minni byggir einnig á valdaformgerðum og oft
einkennist barátta tiltekinna hópa gegn gleymsku, og fyrir viðurkenn-
ingu á minningum sínum, af valdatogstreitu og baráttu við menningarlegt
yfirvald.5 Skrásetning munnmælasagnanna í Reimleikum í Reykjavík sýnir
hvernig gerð er tilraun til að finna þeim stað í menningarlega minninu svo
þær hverfi ekki með samskiptaminni kynslóðanna.
Hugtak franska fræðimannsins Pierre Nora, lieu de mémoire, eða minn-
isvettvangur, er einnig tengt annarri bylgju minnisfræða og hefur birst sem
leiðarstef í síðari textum um menningarlegt minni.6 Hugmyndin um minn-
isvettvanginn vísar ekki aðeins til staðar eða umhverfis heldur á við um
bæði hlutbundin og óhlutbundin atriði sem verða táknræn í menningunni;
endurspegla tiltekið minni eða minningu og leggja grunninn að sjálfsmynd
hópa.7 Sem dæmi má nefna bókmenntaverk, söfn, hátíðisdaga, sögulegar
persónur og önnur fyrirbæri sem eiga sameiginlegt það grundvallarmark-
mið að stöðva tímann, spyrna gegn gleymsku og skapa eins mikla merk-
ingu og hægt er með eins fáum táknum og mögulegt er.8 Ann Rigney
leggur til að ekki ætti að hugsa um minnisvettvang sem kyrrstæða einingu
4 Marion Lerner hefur skrifað um aðgreiningarkenningu Assmann hjónanna í Ritinu.
Sjá „Staðir og menningarlegt minni. Um ferðalýsingar og vörður“, Ritið 1/2013
(Minni og gleymska), bls. 9–28.
5 Sjá sama rit, bls. 14.
6 Pierre Nora, „Between Memory and History. Les Lieux de Mémoire“, Representa-
tions 2/1989 (Memory and Counter Memory), bls. 7–24.
7 Astrid Erll, Memory in Culture, bls. 172.
8 Sjá t.d. umfjöllun Lauru Basu um minnisvettvanginn í „Towards a Memory
Dispositif: Truth, Myth and the Ned Kelly lieu de mémoire, 1890–1930“, Mediation,
Remediation and the Dynamics of Cultural Memory, ritstj. Astrid Erll og Ann Rigney,
Berlin: De Gruyter, 2012, bls. 139–156, bls. 140.
REiMLEiKAR Í REYKJAVÍK