Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Síða 105
104
Hugtakið „hauntology“ (fr. hantologie) er samsett úr „haunting“ og
„ontology“, eða „reimleikum“ og „verufræði“, en þýðing mín „vofufræði“,
endurspeglar tengsl hugtaksins við þau orð. Því til grundvallar liggur hin
opna hugmynd um vofuna sem greiningartæki fyrir það sem er samtímis
fjarverandi og viðstatt, fjarlægt og nálægt. Formgerð vofunnar endurspegl-
ar ákveðna nærværu sem um leið er fjarverandi; eitthvað er aðeins til stað-
ar að hluta en um leið ekki fyllilega fjarlægt. Vofufræði leitast við að greina
hvernig reimleikar, sem verða til við nærveru vofunnar, skapa tímarof og
gefa til kynna að það sem hefur verið bælt, leitar upp á yfirborðið. Að
mati Derrida er það okkar hlutverk við slík tækifæri að hlýða á vofuna og
stofna til samræðu við hana til að skapa réttláta umræðu um erindi hennar
sem getur varðað mál eins og menningarlegt minni; hvernig við greinum
fortíðina af sjónarhóli samtímans og um leið leggjum drög að framtíð-
inni. Vofan gefur þannig til kynna ákveðið tímarof og árekstur fortíðar,
nútíðar og jafnvel framtíðar, því athafnir sem framdar eru í samtímanum
hafa vissulega áhrif á það sem eftir mun koma: „Úr liði er öldin, tíminn er
afvegaleiddur, við hliðina á sjálfum sér, afstilltur. Segir Hamlet.“16
Með hugmyndum sínum um vofufræði leitast Derrida við að afbyggja
hefðbundnar hugmyndir um vofur og reimleika og flækja tengslin á milli
tvenndarpara sem liggja slíkum hugmyndum til grundvallar; s.s. góður og
illur, lifandi og dauður. Sá grundvöllur nær einnig til þeirra staðbundnu
hugmynda sem tengja má við íslenska þjóðtrú. Hugtakið „þjóðtrú“
er afar gildishlaðið og yfirleitt túlkað á þann veg að það lýsi almennri
trú Íslendinga á yfirnáttúruleg fyrirbæri, þar á meðal drauga. Eins og
Christophe Pons bendir á í greininni „Gegn þjóðtrú. Draugasaga í mann-
fræðilegu ljósi“ lýsir þjóðtrú fyrst og fremst menningarbundnum viðhorf-
um þjóðar; ákveðnu hugarfari sem er sameiginlegt einni þjóð og verður
að sérkennum menningar hennar.17 Draugamótífið sem birtist í íslenskum
sagnaarfi, þjóðsögum og Íslendingasögum er skýrt dæmi um menningar-
legt minni sem tengist ekki aðeins textum úr fortíð þjóðarinnar heldur
16 „Time is off its hinges, time is off course, beside itself, disadjusted. Says Hamlet.“
Derrida, Specter of Marx, þýðandi P. Kamuf, bls. 20. Íslensk þýðing mín. Samkvæmt
Derrida er draugurinn alltaf bæði afturganga (fr. revenant), sem ber með sér það sem
var, en um leið komumaður (fr. arrivant) því hann ber einnig með sér það sem mun
verða. Sjá: The Spectralities Reader: Ghosts and Haunting in Contemporary Cultural
Theory, ritstj. Maria del Pilar Blanco og Esther Peeren, New York: Bloomsbury,
2013, bls. 13.
17 Christophe Pons, „Gegn þjóðtrú. Draugasaga í mannfræðilegu ljósi“, þýð. irma
Erlingsdóttir, Skírnir 1/1998, bls. 143–163.
veRa knútsDóttiR