Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Side 112
111
Átökin um Austurvöll sýna hvernig ólíkir hópar samfélagsins leggja
ólíka merkingu í hugtök á borð við „sjálfstæði“ og „lýðræði“ en sú ólíka
merking byggir ekki síst á ólíkum minningum sem þó tengjast sama stað
í borgarrýminu. Sá staður verður fyrir vikið að minnislegu átakasvæði þar
sem tekist er á um menningarlegt minni, hvaða skilning beri að leggja í
það og hvernig því eigi að miðla. Alþingishúsið og Austurvöllur verða að
stöðum sem haldnir eru reimleikum, þar sem þaggaðar minningar ásækja
hið opinbera menningarlega minni. Hér kallast þeir reimleikar á við sög-
una um möruna sem táknar ógn á sama hátt og yfirvofandi mótmæli eru
ógn við yfirvaldið sem hefur aðsetur í Alþingishúsinu.
Móakotslind: Gleymska í borgarrýminu
önnur sagan sem ég hef valið að fjalla um er töluvert frábrugðin þeirri
fyrri. Hér fáum við ekki sögu í hefðbundnum skilningi heldur frásögn
sem rifjar upp gleymdan stað í Reykjavík. Staðurinn var nánar tiltekið
lind sem bar heitið „Móakotslind“ og þjónaði sem vatnsból. Hún var í
Skuggahverfinu þar sem stór hluti bæjarbúa bjó við upphaf 20. aldar. Ólíkt
öðrum vatnsbólum í Reykjavík var Móakotslind stutt frá mannabyggð en
Matthías Einarsson læknir segir frá því í grein í Læknablaðinu frá árinu
1947 að peningshús og salerni voru rétt austan við lindina.37 Árið 1906
kom upp taugaveikifaraldur í Reykjavík sem lagði einn af hverjum hundrað
íbúum bæjarins að velli. Í fyrstu töldu héraðslæknir og landlæknir að um
væri að ræða venjulega „haust-taugaveiki“ en Matthías og fleiri læknar
beittu þeirri læknisfræðilegu þekkingu, sem þeir höfðu aflað sér, til að sýna
fram á samband heilsufars og umhverfisþátta og benda á að upptök veik-
innar væri umrædd Móakotslind. Í fyrstu var ekki tekið mark á þeim en
þegar Matthías kortlagði svæðið, þar sem taugaveikin hafði skotið rótum,
merkti hvert heimili þar sem veikindi voru, fjölda sjúklinga, og síðast en
ekki síst hvar hvert heimili sótti drykkjarvatn sitt, var ekki um að villast;
Móakotslind var full af skólpi og öðrum óþverra og henni skyldi lokað.38 Í
kjölfarið voru samþykkt lög um vatnsveitu í Reykjavík og reglur sem kváðu
á um að vatnssalerni yrðu sett í hvert hús bæjarins.
Frá þessu er sagt í Reimleikum í Reykjavík. Þar er lindinni lýst sem
minnisstað, eða locus í skilningi Connertons, og vísað til þess að hún var
37 Matthías Einarsson, „Taugaveikin í Reykjavík 1906–1907“ Læknablaðið 6/1947, bls.
81–85, hér bls. 82.
38 Sama heimild, bls. 82–83.
REiMLEiKAR Í REYKJAVÍK