Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Síða 116
115
greinar gerð höfundar um staðinn, og draugasögu hans, en aðalmarkmiðið
virðist vera að komast að því hvort Margrét þjáist í eftirlífinu. Það sem er
einna áhugaverðast við lýsingar miðilsins er hvernig hún gerir greinarmun
á draugum og öndum. Eða eins og höfundur hefur eftir henni: „[…] ólíkt
öndunum væru draugar fremur bundnir við tiltekna staði – oft bygging-
ar – og af ýmsum ástæðum vildu þeir ekki halda ‚áfram‘“.46 Hér birtist
áhugavert sjónarhorn á rými og hvernig óhlutbundin atriði, sem endur-
speglast í tvíræðri formgerð draugsins, taka sér bólfestu í því. Eins og á
við um minningar er hér litið svo á að draugar séu fyrst og fremst bundnir
ákveðnu rými eða stað. Sú afstaða vekur upp hugmyndir um aðra nálgun
á staðarminni og hér verður draugurinn að hentugu greiningartæki fyrir
næstum því gleymda minningu, sem neitar með öllu að falla í gleymsku,
og öðlast fyrir vikið vofulega nærveru á staðnum. Þrátt fyrir að túlka megi
þá athöfn höfundarins, að fara með miðil í vofulegt rými, sem tilraun til
að vekja upp drauginn, er sú athöfn ekki í samræmi við hugmyndir reim-
leikafræðanna sem leggja áherslu á samtalið við drauginn. Hér er frekar
lögð áhersla á að lýsa illu innræti hins látna geranda og því óréttlæti sem
einkennir upplifun fórnarlambanna með þeim afleiðingum að til verður
saga sem er mun áleitnari en venjuleg draugasaga.
Þegar fórnarlömb séra Ágústs hófu að skýra frá ofbeldinu opinberlega,
var skipuð nefnd af yfirvöldum til að rannsaka ásakanir nemenda hans um
kynferðisofbeldi. Að rannsókn lokinni, gaf nefndin út veigamikla skýrslu
sem opin er almenningi og má nálgast á internetinu. 47 Saga og minningar
fórnarlambanna sem reifaðar eru í skýrslunni eru rifjaðar upp í Reimleikum
í Reykjavík. Frásagnir skýrslunnar, og eins þær sögur sem birtust í fjöl-
miðlaumræðu um málið, sýna hvernig Landakotsskóli verður að vettvangi
tráma og að trámatískum minnisstað fyrir þá nemendur sem urðu fyrir
ofbeldinu. Tráma vísar í upplifun eða lífsreynslu sem orsakað hefur heift-
arlegt tilfinningaáfall og skapað djúpstætt sálrænt sár hjá einstaklingum.48
Því er einnig lýst sem tegund af minni sem einkennist af bælingu þar
sem á sér stað aðgreining frá upplifuninni um leið og hún gerist og birt-
46 Sama heimild, bls. 71.
47 „Rannsóknarnefnd Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Skýrsla um viðbrögð og starfs-
hætti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna ásakana um kynferðisbrot eða önnur of-
beldisbrot vígðra þjóna og annarra starfsmanna kirkjunnar“, Reykjavík, 2. nóvember
2012, sótt 8. desember 2015 af http://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/2717/
Skyrsla.pdf?sequence=1.
48 Roger Luckhurst, The Trauma Question, London og New York: Routledge, 2008,
bls. 1.
REiMLEiKAR Í REYKJAVÍK