Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Síða 152
151
hlutlægni“ (e. strong objectivity) sem á rætur að rekja til sjónarhornsfræða,
þó að hugtakið og skýringin á því hérna sé frá mér komin. Sterk hlutlægni
hefur ýmsa kosti. Eins og bent hefur verið á sprettur hún upp úr glöggri
sýn á hvernig vísindi eru í raun iðkuð í veruleikanum nú á dögum. Hún
varð ekki til sem óhlutstæð hugmynd um hvað væru fullkomnar rannsókn-
ir. Ennfremur, í ljósi þessara aðstæðna, reynir sá sem beitir henni að átta
sig nákvæmlega á meginvanda þess að nota viðtekna rannsóknarhætti til að
framkvæma gildislausa rannsókn; nefnilega einsleitni rannsakendanna, sem
er bæði „náttúruleg“ (þeir eru til dæmis allir karlar) og lærð (með kennslu
í faginu). Með öðrum orðum laða þessir rannsakendahópar aðeins að sér
ákveðna tegund manna með félagsleg gildi og hagsmuni ráðandi sam-
félagshópa, og síðan hljóta þeir þjálfun í rannsóknum sem efla enn frekar
þessi gildi og hagsmuni. Ennfremur beinist sterk hlutlægni að því að svara
spurningum um tengslin á milli lífsskilyrða þeirra sem verið er að rannsaka
og víðtækari félagslegra tengsla sem móta þessi skilyrði. Auk þess snýst
hún um að kanna árangursríkar rannsóknir kvenna og bera kennsl á hvað
það var sem rannsakendur gerðu til að ná árangri svo að hægt sé að benda
á hvernig ná megi slíkum árangri að nýju í framtíðarrannsóknum. Hún
byggist á „bestu rannsóknarháttum“ sem völ er á en ekki á utanaðkomandi
óhlutbundinni hugmynd um þá. Loks koma hugmyndir og aðferðir sterkr-
ar hlutlægni heim og saman við hugmyndir á sviði félagsfræði vísinda og
tækni (e. social studies of science and technology), en það atriði verður rætt
nánar hér á eftir. Einkenni sterkrar hlutlægni gera hana jöfnum höndum
að aðferðafræði, þekkingarfræði, vísindaheimspeki og félagsfræði þekking-
ar. Þess vegna hafa sterk hlutlægni og aðferðir sjónarhornsfræða fundið sér
stað í mörgum fræðigreinum.
Í næsta kafla greinarinnar verður hugmyndin um sterka hlutlægni
útskýrð. Í síðari köflum verður fjallað um hvað hún gerir og gerir ekki með
því að íhuga ýmiss konar kunnuglega gagnrýni á hana, og vakin verður
athygli á hvernig aðferðafræði sjónarhornskenninga og sterkrar hlutlægni
samsvarar mikilvægum hugmyndum í þeirri félagsfræði vísinda sem kom
fram á eftir Thomasi Kuhn.12 Þessi samsvörun skipar (fyrir tilviljun) öfl-
Reardon, Race to the Finish. Identity and Governance in an Age of Genomics, Princeton
og Oxford: Princeton University Press, 2005.
12 Thomas Kuhn, The Structures of Scientific Revolutions, Chicago: University of
Chicago Press, 1962, 2. útg. 1970. Sjá einnig íslenska þýðingu verksins: Vísindabylt-
ingar. Ísl. þýðing Kristján G. Arngrímsson. Reykjavík: Hið íslenska bókmennta-
félag, 2015.
STERKARi HLUTLæGNi FYRiR GRASRÓTARVÍSiNDi