Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Qupperneq 154
153
hlutleysi (e. value-neutrality) í vísindum séu stundum notaðar til að örva
og stundum til að draga úr viðgangi þekkingar. Einnig hefur yfirlýsingin
um hlutleysi stundum verið gefin til að styðja við – stundum til að sporna
gegn – lýðræðistilhneigingum í rannsóknum.14 Yfirlýsingar um gildishlut-
lausa hlutlægni (e. value-neutral objectivity) eru hluti af víðtækari pólitískri
og félagslegri spennu hverju sinni.
Ég hef haldið því fram að hugmyndina um gildishlutleysi verði að
setja í pólitískt samhengi. Hlutleysi vísinda er ekki afleiðing rök-
fræðilegrar gjár á milli staðreyndar og gildismats, ekki heldur eðli-
leg afleiðing þess að vísindi voru afhelguð, ekki einu sinni afleiðing
þess að aðferðafræði eðlisvísinda var tekin upp í félagsvísindum.
Hún er viðbrögð við víðtækari pólitískum breytingum, þar á meðal
þeim að ríkisstjórnir og atvinnulíf nota vísindi á annan hátt en gert
var, aðskildar fræðigreinar eru orðnar atvinnugreinar, og reynt er að
halda vísindum frá viðkvæmum málefnum hvers tíma.15
Auk breytilegrar merkingar orðsins „hlutlægni“ skortir það fasta tilvísun.
Hlutlægni, eða vanhæfni til hlutlægni, hefur verið eignuð einstaklingum
eða hópum, svo sem konum, svörtum Bandaríkjamönnum eða frumbyggj-
um sem þekkja aðra menningu en þá vestrænu; þessum hópum er vísað á
bug á þeim forsendum að þeir hneigist til sjálfhverfu og huglægni. Fólk
sem þessum hópum tilheyrir er talið óhæft til að framleiða þá traustu
þekkingu sem vænta má af körlum, hvíta kynstofninum, Vesturlandabúum
eða öðrum hærra settum hópum. Thomas S. Kuhn16 hefur fjallað um
aðra notkun hugtaksins hlutlægni sem á við þá gerð rannsóknarsamfélaga
sem aðeins nútímavísindi geta af sér. Þessi samfélög eru þjálfuð í að líta
viðteknar skoðanir efasemdaraugum og þurfa þess vegna einnig að þróa
með sér grundvallarreglur um gagnkvæma virðingu og traust svo að ein-
staklingar innan þeirra þurfi ekki að gjalda þess að hafa komið gagnrýni
sinni á framfæri. Í þessum samfélögum eru nemendur á fyrsta þrepi fram-
haldsnáms í háskóla hvattir til að hugsa gagnrýnið um ríkjandi hugmyndir
og fullyrðingar, einnig þær sem nóbelsverðlaunahafinn yfir rannsóknastof-
unni kann að hafa sett fram. Hugtakið er oft notað til að lýsa niðurstöðum
14 Robert Proctor, Value-Free Science? Purity and Power in Modern Knowledge, Cam-
bridge, MA: Harvard University Press, 1991, bls. 262.
15 Sama heimild, bls. 267.
16 Thomas Kuhn, The Structure of Scientific Revolutions.
STERKARi HLUTLæGNi FYRiR GRASRÓTARVÍSiNDi