Breiðfirðingur - 01.04.1982, Page 45
BREIÐFIRÐINGUR
43
Afi og pabbi fengu sér nú kaffi og fóru síðan báðir út til að gefa
fénu. Síðan þaut pabbi með staf í hendi inn á engjar og Valur
með honum. Þegar faðir minn kom inn að Kotengisgili sá hann
að ógurlegt snjóflóð hafði fallið fram af Kotengishöfðabrúnni og
ruðst á breiðu svæði niður á jafnsléttu. Honum flaug nú margt í
hug. Hvergi var hest að sjá. Hann fór nú meðfram snjóflóðinu
og alla leið niður á bakka. Þá fann hann þrjá hesta dauða sem
gaddfreðnir stóðu upp úr snjóruðningunum. Honum datt nú í
hug að ekki þyrfti að leita lengra. Hin hrossin gætu verið þarna
undir, ef til vill uppi í hlíðinni. Þangað fór hann og fann hann
fjórða hrossið. Var það lifandi en auðsjáanlega stórskaddað.
Hann fór nú þarna fram og aftur um snjóflóðið en fann ekki
fleiri hesta. Þá fór hann niður að sjó, og niður á Læki svokallaða.
Þar fann hann þrjá hesta lifandi. Voru þeir allir frá Mávahlíð.
Þeir stóðu allir saman í hnapp, og hreyfðu sig ekki, þó veðrið
væri gengið niður. Þeir voru orðnir stirðir og þrekaðir. Fleiri
hesta sá pabbi ekki, fór þó inn að Búlandshöfða, eins langt og
hann komst. Heim kom hann svo með þessa þrjá hesta sem hann
fann lifandi.
Það var liðið langt fram á dag og farið að undrast um ferðir
pabba. Hestana þrjá lét hann í hesthúsið. Þegar heim kom og
hann hafði sagt þessar voðalegu fréttir urðu allir skelfmgu
lostnir. Pabbi kom aðeins í bæjardyrnar, þangaðfærði mamma
honum mjólk að drekka. Síðan hélt hann ferðinni áfram að Tröð
og Fögruhlíð því allir hestar frá þeim bæjum voru þarna líka.
Með pabba komu svo framan af bæjum, Magnús bóndi í Tröð
og Hjörtur vinnumaður í Tröð, ennfremur sonur gömlu
hjónanna í Fögruhlíð, Hjörtur Jónsson, sem var rómaður krafta
og dugnaðarmaður. Var ekki verra að hafa hann með í það verk
sem framundan var. Þeir fóru nú allir frá Mávahlíð, með
skóflur, reipi og sitthvað fleira. Afi fór upp í hesthús að gæta að
hvaða hesta pabbi hefði komið með. Þangað fór ég með honum.