Breiðfirðingur - 01.04.1982, Page 59
BREIÐFIRÐINGUR 57
Ásgeir og Þuríður eignuðust 11 börn. Aðeins 3 þeirra náðu
fullorðinsaldri: Salbjörg, Jóhanna og Guðjón.
Venjulega var fært frá 40-50 ám á búi þeirra hjóna, um 80
sauðir á fóðrum og annar bústofn eftir því. Á þessum árum lifði
fólk langmest á innlendum afurðum. -Algengt var að slátra á ári
til heimilisins um 20 sauðum, 3ja til fímm vetra. Var það mikið
búsílag. Þetta mun þó hafa verið eitthvað breytilegt, því að fóstri
minn vildi helst ekki slátra sauðum nema á hinu staka aldursári
þeirra. Enn fremur var slátrað gamalám og stórgripum. -
Hrossakjöt var þó alls ekki nýtt. Möguleikar til þess að selja kjöt
til þéttbýlisins voru þá nánast engir. Öll lömb voru sett á vetur, -
voru þau oft kölluð graslömb.
Stundum sögðu gömlu hjónin mér frá ýmsu minnisverðu frá
þeirra yngri árum. Eg reyni að rifja hér upp nokkur atriði.
Harðindi voru víða mikil á íslandi á árunum 1880-1888.
Fannfergi var þá oft mikið að vetrarlagi og grasleysi á sumrin.
Búfénaður féll víða og bjargarskortur ekki fátíður, bæði hjá
mönnum og málleysingjum. Veturinn 1882-1883 var kallaður
Álftabani. Þá var hafís mikill úti fyrir og allir flóar og firðir ísi
lagðir. Var þá víða þröngt í búi. Breiðafjarðarbyggðir munu þó
hafa farið einna skást út úr þessu, enda margar eyjanna oft
nefndar matarkistur.
Fósturforeldrar mínir reyndu eftir bestu getu að hjálpa þeim,
sem áttu við skort að búa. Fóstra mín sagði mér, að allt hefði það
blessast vel, sem þau hjónin létu af hendi rakna. Á
Kýrunnarstaðaheimilinu var oftast nóg að borða, þó aðeins með
miklum sparnaði. Stundum gekk mjög illa með heyöflun. Varð
þá oft að farga búpeningi á haustin, sem átt hafði að setja á.
Aldrei kom þó til þess hjá Ásgeiri og Þuríði að skera þyrfti
niður vegna heyleysis á útmánuðum. Slíkt var auðvitað talið
mikið neyðarúrræði.