Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 146
144 BREIÐFIRÐINGUR
Morguninn eftir var hann horfinn. Hafði hann notað tækifærið
um nóttina og stokkið á hlið sem var inn á melum. Það var möl-
brotið um morguninn. Þótti þá víst hver hefði verið þar á ferð.
Pabbi fór um kvöldið að leita hans og fann hann inn í Skerðings-
staðadal í hópi vina sinna. Um kvöldið var hann tjóðraður úti í
túnjaðri.
Morguninn eftir fórum við krakkarnir að gá að honum. Stóð
hann þá og hengdi niður hausinn. Var hann búinn að krafsa
jörðina og var moldarflag allt í kring um hann. Ég læddist að
honum af því hann stóð svona kyrr, tók í bandið og sá þá að tár
hrundu úr augunum sem voru hálf lokuð, og svipurinn svo
raunalegur. Ég fann svo innilega til með þessum blessaða fanga,
sem þráði svo frelsið og hrossastóðið heima. Hann sætti sig alls
ekki við að vera í Mávahlíð, þó mér þætti það fallegasti staðurinn
á þessari jörð. Ég reyndi að klappa honum og gæla við hann, en
þá kastaði hann mér frá sér með hausnum. Ég féll endilöng á
völlinn. Hann vildi ekki þýðast við mig. Alltaf sami hrottinn.
Það var nokkru seinna, eitt góðviðriskvöld, frammi við
túnhlið að pabbi lagði í það stórræði að koma hnakk á Hrotta.
Það tók langan tíma. Verst var að koma reiðanum undir taglið.
Þá neytti hann allra bragða, sló og beit, en pabbi var gamall
glímumaður og varðist fimlega öllum áföllum og með
þrautseigjunni tókst honum loks að spenna reiðann. Var nú
skapið úfið í Hrotta. Hann frísaði, krafsaði jörðina upp með
hófunum. Hann setti upp kryppu eins og hann ætlaði að
sprengja af sér hnakkinn. Augun gneistuðu af reiði, og froðan
vall úr munnvikunum. Beislismélin nísti hann milli tannanna.
Eftir grimma viðureign tókst pabba að komast á bak honum.
Það voru mikil tilþrif í skepnunni er hann þeystist eftir
forarmýri, sem var rétt fyrir sunnan hliðið og fram að
Brattakletti. Þar stóð hann kyrr í smástund, þá allt í einu rís
hann upp á afturfæturna og prjónar eins og hann var langur til,