Breiðfirðingur - 01.04.1982, Page 153
BREIÐFIRÐINGUR
151
farinn að sverfa óþyrmilega að mér. Þó var ég alltaf að drekka úr
lækjunum á leiðinni, en þó blessað vatnið sé gott, er það létt í
magann. Hundar tveir komu heiman frá bænum og geltu ákaft
að þessum furðulega ferðalang. Þarna fram með hlíðinni var
helst von að sjá hesta. Ég skimaði í allar áttir. Hrotta varð ég að
finna. I hlíðinni fyrir ofan tóftir sá ég stóran hóp af hestum, voru
þeir flestir rauðir eða skjóttir. Ekki sá ég nú Hrotta þarna til að
byrja með, en von fór að vakna í brjósti mínu um að leitinni væri
að ljúka.
Þegar ég kom nær sá ég mér til mikillar gleði að Hrotti
vinurinn var þarna á beit með hrossunum.
Ég fór nú afar hljóðlega í átt til hans. Ekki leit hann upp, en ég
sá að hann gaut augunum til mín, og ekki var að efa að hann
þekkti mig. En nú var spurningin. Hvernig fer ég að ná honum?
Hann var nú stundum erfiður, og ekki síst þegar hann var á
þessum slóðum. Nú settist ég niður, og hugsaði mitt ráð. Þá
reisti Hrotti hausinn allt í einu og horfði á mig stórum augum
eins og hann væri steinhissa á þessu háttalagi mínu að vera að
setjast niður, svona rétt hjá sér, og mér sýndist hann ekkert
ljótur á svip, eins og svo oft áður, er ég var í sömu erindum.
Hann horfði á mig svolitla stund, síðan fór hann að bíta aftur,
og sló nú til taglinu sem bæði var sítt og mikið.
Það var eins og að mér væri hvíslað. „Reyndu nú að ná
honum“. Ég stóð upp, gekk rakleitt til hans, klappaði honum á
lendina, þó með hálfum hug, því hann átti til að slá og verja sig
með rassinum. Nú brá svo við, að hann stóð grafkyrr, er ég
fikraði mig fram með síðunni á honum og tók um hálsinn á
honum. Ég klappaði honum og talaði við hann meðan ég tók
beislið af öxlinni og lagði við hann. Orð fá ekki lýst hvað ég var
fegin, er ég var búin að ná Hrotta og beisla hann. Þetta var mér
óþekkt frá sumrinu áður, þá náði ég honum aldrei, nema í rétt,
eða heima við hlið. Jæja, nú lagði ég af stað heim. Teymdi