Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Page 2
2 TMM 2009 · 4
Frá ritstjóra
„Þessi lággróður er allt að kæfa,“ segir Matthías Johannessen ritstjóri og
skáld í dagbók sinni þann 3. nóvember árið 1999. Og heldur áfram: „Og
hann nærist á þessari svokölluðu markaðshyggju. Við boðuðum hana
ekki á sínum tíma í því skyni að hún væri forsenda þess að illgresið eða
arfinn, eða lággróðurinn tæki öll völd á Íslandi. […] Peningarnir ráða
öllu og við erum ofurseld peningahyggjunni …“
Margt fleira athyglisvert er að finna í þeim dagbókarbrotum Matth-
íasar sem hér koma í fyrsta sinn fyrir almennings sjónir – þar á meðal
bollaleggingar um eftirmann Matthíasar sem kunna að bregða nýju ljósi
á atburði kringum Morgunblaðið tæpum tíu árum síðar, og öllum eru í
fersku minni. Dagbækurnar sem eru geysimiklar að vöxtum eru einstæð
heimild um okkar daga. Matthías hefur lengi verið í sporum rithöfunda
og höfðingja Sturlungaaldarinnar – þátttakandi og greinandi í senn – í
miðju atburða en um leið álengdar við þá - og ekki er að efa að vandað
úrval úr dagbókum hans á eftir að líta dagsins ljós á prenti fyrr eða síðar.
Að vanda er Tímaritið stútfullt af efni: þeir Guðni Elísson bókmennta-
fræðingur og Jón Ólafsson heimspekingur greina hvor með sínum
glöggskyggna hætti ríkjandi hugmyndafræði og hugarfar í íslensku
samfélagi rétt fyrir hrun; Sigurjón Árni Eyjólfsson guðfræðingur heldur
áfram að opna okkur hugmyndaheim bóka Bjarna Bjarnasonar rithöf-
undar en fyrri grein Sigurjóns um þetta efni sem birtist í síðasta hefti
vakti mikla athygli; Úlfhildur Dagsdóttir skrifar persónulega og bráð-
skemmtilega grein um drenginn áttræða Tinna, höfund hans og bak-
grunn en Þorsteinn Antonsson rithöfundur og fræðimaður tekur hér að
birta afrakstur af grúski sínu í því efni sem Elías Mar rithöfundur lét
eftir sig: að þessu sinni merkileg bréf sem fóru á milli þeirra Elíasar og
Ragnars í Smára og sýna nýja hlið á samskiptum höfundar og þessa
fræga útgefanda.
Að ógleymdri frábærri póesíunni og tveimur mögnuðum smásögum
– djúpseilnum dómum og þarfri ádrepu Péturs Gunnarssonar.
Að lokum ein leiðrétting. Þau leiðu mistök urðu í ljóði Sverris Nor-
lands í síðasta hefti, Aukinn ljóðalestur í Reykjavík, að nafn skáldkon-
unnar góðkunnu Þóru Jónsdóttur misritaðist á blaðsíðu 85, þegar ort er
um bók hennar Landið í brjóstinu. Beðist er velvirðingar á þessu og les-
endur mega gjarnan leiðrétta þetta í heftum sínum.
Guðmundur Andri Thorsson
TMM_4_2009.indd 2 11/5/09 10:03:41 AM