Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Qupperneq 33
Ú r d a g b ó k u m M a t t h í a s a r 19 9 9 – 2 0 0 0
TMM 2009 · 4 33
Sjónvarpskynni eru eins og hver önnur skyndikynni og þá er þetta val
eins og önnur slík kynni, þau gætu valdið vonbrigðum.
Þetta er að vísu saklaust – og þó ekki. Fjölmiðlar eru fljótir að breyta
saklausum leikjum í klámhögg. Það sést á fullyrðingum eins og þessari:
Fólkið sem þjóðin vill sofa hjá! Vill þjóðin sofa hjá fólki? Er þjóðin eins
og hver annar einstaklingur sem girnist, án ásta? Er verið að reyna að
breyta umhverfi okkar í súludansandi vændishús?
Eða hver er tilgangurinn?
Að selja fólk, auðvitað. Að daðra við lágmenninguna, auðvitað. Allar
hugsjónir hafa fokið út í veður og vind. Þær dóu með kalda stríðinu. Það
var oft hart, djöfullegt, ófyrirleitið. En það átti sér þó heilög markmið og
menn lifðu á forsendum ástríðufullrar hugsjónar. Þær voru kannski
ekki réttar, en þær skiptu máli. Og þær voru ekki falar fyrir peninga,
ekki endilega. En þær gátu kostað menn æruna, jafnvel lífið, ef því var
að skipta. Þær breyttu mörgu fólki í sterka einstaklinga. Þær kölluðu
fram dýrið í einum, mennskuna í öðrum. Það var aldrei neitt sem var
bæði heitt og kalt, eins og segir í Opinberunarbók Jóhannesar, heldur
annaðhvort heitt eða kalt. Það var guðspjall dagsins. Um það orti Jónas
á sínum tíma, þegar hann vildi að einstaklingurinn væri hraustur, eins
og hann kemst að orði og hafnaði dekrinu við hálfvelgjuna. Hann vissi
að af henni sprytti lággróðurinn, yxi eins og rótlítið illgresi og kæfði allt
sem skipti máli. Nú virðist helzt ekkert skipta máli. Kristnihátíð á næstu
grösum og mér skilst þá eigi að efna til popphátíðar með vínsölu á
Þingvöllum. Það er virðingin fyrir staðnum, virðingin fyrir arfleifðinni;
virðingin fyrir umhverfi okkar. Þar sem Tómas stóð og flutti þjóðhátíð-
arljóð sitt 1974, á hin alþjóðlega hávaðamenning að vísa veginn – til
Krists!
Askurinn er allra trjáa mestur og bestur, segir í Snorra-Eddu. Níð-
höggur nagar neðan rótina, segir enn. Þar undir liggur Mímisbrunnur.
Af honum fékk alfaðir ekki að drekka fyrr en hann lagði auga sitt að
veði. Skyldi vera komið að þessum orðum í Völuspá:
Skelfur Yggdrasils
askur standandi,
ymur hið aldna tré …
Og hvað gerist þá? Aðdragandi ragnaraka því að jötunn losnar.
TMM_4_2009.indd 33 11/5/09 10:12:58 AM