Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Blaðsíða 43
Ú r d a g b ó k u m M a t t h í a s a r 19 9 9 – 2 0 0 0
TMM 2009 · 4 43
Ég get þannig farið að hætta á Morgunblaðinu ósköp rólegur yfir því
að þessi barátta skuli hafa borið árangur, ekki síður en margt annað sem
við höfum látið til okkar taka í Morgunbaðinu á þeim tíma sem ég hef
unnið að ritstjórn þess. En margt er eftir og margt má betur fara. Mark-
aðurinn t.a.m. er ekki listvænn, hann spyr ekki um gæði, heldur hvernig
hjörðin leitar uppi vinsældalistann. En betra fyrirkomulag hefur ekki
enn fundizt, því miður, og á meðan svo er verðum við að gera út á sam-
félagið, fjárlögin. Við verðum að krefjast þess að ríkið reyni að standa
vörð um þau listrænu verðmæti sem markaðurinn hunzar; ekki endilega
fyrir þá sem nú lifa, því að þeim er skítsama, heldur framtíðina; þessa
sömu framtíð og tók Bach að sér tvö hundruð árum eftir andlát hans.
16. október 2000, mánudagur
Komum heim frá Skotlandi í gær, gott flug, góð tilfinning. Frábær dvöl
hjá Ingólfi syni okkar í Edinborg. Ætla að bæta við ferðarispurnar
nokkrum atriðum úr þessari heimsókn til Edinborgar.
Fór í SPRON með afganginn af gjaldeyrinum. Hitti þar Davíð Odds-
son. Held hann hafi verið að leggja inn fjögurhundruð þúsund krónur.
Fjögurhundruð þúsund, sagði hann eða fjórar milljónir!
Nei, þú ert auðvitað að leggja inn fjögurhundruð milljónir, sagði ég,
rétt eins og allir aðrir!
Hann brosti.
Við vorum samferða út. Hann sagðist fara í heimsókn til Winnipeg
með flugi til Minneapolis síðar þennan sama dag. Flýgur síðan til
Winnipeg.
Við töluðum dálítið saman og raunar sérkennilegt eftir á að hyggja
hvað okkur tókst að koma miklu að. Ég sagði honum m.a. að ég hefði
fengið bakþanka um það, hvort við Styrmir værum með ranga stefnu,
þegar við hefðum sagt að leyfa ætti útlendingum að fjárfesta í sjávarút-
vegi. Ég hefði áhyggjur af því. Hann sagði það væri rétt hjá mér því þetta
væri vitlaus stefna. Ég sagði Styrmi þetta síðar um daginn, en hann
minnti mig á að við hefðum tekið þessa afstöðu fyrir þremur árum. Það
er rétt. Ég sagði Davíð líka að ég bæri ekki síður ábyrgð á þessari stefnu
en Styrmir.
En hún er röng, sagði Davíð ákveðið, og það er rétt hjá þér að fá
bakþanka.
Þetta hafði hvílt á mér en eftir samtalið við Styrmi síðar um daginn
létti mér dálítið vegna þess að hann reyndi að sannfæra mig um að
útlendingar mundu aldrei ná tökum á sjávarútvegsfyrirtækjum hér
heima. Ég minnti hann á Schengen sem tæki gildi í marz næsta ár. Þá
TMM_4_2009.indd 43 11/5/09 10:12:59 AM