Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Page 45
Ú r d a g b ó k u m M a t t h í a s a r 19 9 9 – 2 0 0 0
TMM 2009 · 4 45
Ég sagði marxistar hefðu fengið bók með fallegum orðum. Þeir hefðu
tekið þessa bók og reynt að breyta hugmyndum hennar í veruleika. Þá
hefðu pólitískir glæpamenn tekið völdin og afflutt þessa bók. Þeir hefðu
eyðilagt marxismann. Við værum ekki í ósvipuðum sporum. Nú hefðu
fjármálaævintýramenn komið óorði á langþráð markaðsumhverfi
okkar. Af þeim sökum ættum við ef til vill auðveldara með að skilja þá
marxista sem gengu heilshugar til leiks og trúðu á fallegar kenningar.
Við höfum einnig trú á frjálshyggjuna sem lausnarorð lýðræðis og frels-
is, en sitjum uppi með braskara.
Já, sagði Davíð og hristi höfuðið, en það er samt nauðsynlegt til lang-
frama.
Ég hugaði um þessi orð; til langframa. Sætti mig við þetta, ef þróunin
verður okkur til blessunar.
En hver veit?
Davíð nefndi ekki að ég væri að hætta á Morgunblaðinu, hvað þá að
hann hefði hug á að taka við af mér. Með því að segja mér frá því að þeir
Halldór Ásgrímsson hefðu átt gott samtal, held ég hann hafi verið að
gefa mér í skyn að hann hefði ekki áhuga á mínu starfi við blaðið. Ég
sagði við hann að augljóst hefði verið að Halldór hefði verið orðinn
argur í stjórnarsamstarfinu, en þá svaraði Davíð, Ég var líka orðinn
mjög argur.
Kannski heldur þetta stjórnarsamstarf eitthvað lengur, en mér er til
efs það verði til eilífðarnóns!
Ódagsett
Leifur Sveinsson sagði við mig einn morguninn í síðustu viku að Davíð
Oddsson væri hættur við að verða ritstjóri Morgunblaðsins. Þeir bræður
hefðu verið að grínast með þetta sín á milli því að honum hefði ekki
verið boðið starfið! Þeir eru báðir á móti því að forystumaður í stjórn-
málum taki við ritstjórastarfi mínu. Mér skilst þeir virði það báðir
hvernig blaðinu hefur verið ritstýrt á undanförnum áratugum, án
tengsla við stjórnmálaflokk. Sumir aðrir eigendur, eða stjórnarmenn
skilst mér, leggi lítið sem ekkert upp úr þessu atriði, en vilji fá sterkan
pólitíkus, mér er sagt bæði Stefán Eggertsson og Hulda Valtýsdóttir vilji
fá Davíð Oddsson sem eftirmann minn. Það gætu þannig orðið einhver
átök um starfið, en vonandi ekki …
Hannes Hólmsteinn er einn þeirra sem skrifar grein um nýbyrjaða öld í
bók sem Háskólinn hefur gefið út. Ég barði greinina augum, eins og
TMM_4_2009.indd 45 11/5/09 10:12:59 AM