Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Qupperneq 63
B a k v i ð f o s s i n n
TMM 2009 · 4 63
borða, hann hlustar á útvarp, horfir á sjónvarp, fer í gönguferðir, sinnir
erindum sínum, fylgist með dagsbirtunni verða að grárri skímu og
hverfa. Klukkan átta um kvöldið leggur hann af stað í vinnuna. Hann
tekur neðanjarðarlestina, situr með hendur í skauti og fylgist með
hinum farþegunum, myndar sér skoðanir á þeim, varar sig á að augu sín
mæti þeirra. Flúrljósin í lestinni varpa grænleitri birtu á andlitin, birta
kuskið á flíkunum, ójafnan farða kvennanna.
Allt er ljótt í þessari birtu, og maðurinn hugsar til þess að þeir sem
hönnuðu neðanjarðarlestakerfið aka einkabílum, að þeir þurfa ekki að
sitja og telja æðarnar í kinnum fólks. Að ef hann réði væri algert myrkur.
Að það gæti verið eins og svefninn sjálfur að ferðast með lestinni og að
í myrkrinu gæti fólk þó látið sig dreyma.
Stundum ímyndar maðurinn sér að hann standi nakinn í miðjum
vagninum, hvítur og skvapaður með daufgrænum gljáa, æðabert holdið
og rauð exemin sem veturinn veldur honum, allt þetta sjáanlegt hinum
og maðurinn fær verk fyrir brjóstið, óttinn lamar hann, ljótleikinn.
Næturvarslan sem hann sinnir er í bensínstöð. Bensínstöðin er við
hraðbraut sem liggur út úr bænum. Eftir miðnætti koma viðskiptavin-
irnir sjaldnast inn í verslunina og maðurinn situr yfirleitt einsamall í
glerbúrinu sem byggt hefur verið yfir afgreiðsluborðið í því skyni að
vernda hann fyrir glæpafólki sem mögulega sveimar um hverfið að
nóttu til, hann situr þar einn og leggur kapal eða les bók.
Þegar viðskiptavinir koma hringja þeir bjöllu, hávært glamur fyllir
annars þögult rýmið og maðurinn rís örlítið úr sæti sínu, virðir þá fyrir
sér sem vilja koma inn, hvort af þeim geti stafað hætta. Ef hann kýs að
hleypa þeim inn þrýstir hann á hnapp sem lýkur upp glerhurðinni.
Maðurinn er flóðlýstur, þar sem hann situr í glerboxinu sínu og fylg-
ist með fólkinu velja sér þær vörur sem það þarf.
Hann hefur minnst á þetta við yfirmanninn sinn, sagði skjanna-
birtuna lýjandi. Yfirmaðurinn var skilningslaus, talaði um keðjuna, um
hin útibúin, samhæfða reglugerð, sagði birtuskilyrðin ekki vera á sínu
valdi, að maðurinn þyrfti að fara með umkvörtun sína hærra.
Hærra, hugsaði maðurinn, og svo um það hversu lágt hann lægi, en
hugsunin var örsnögg, hvítur sársauki sem flassaði og blandaðist svo
saman við allt hitt. Maðurinn þekkir flesta viðskiptavini sína, þessa fáu
íbúa hverfisins sem af einhverjum ástæðum vaka á nóttunni, líkt og
hann sjálfur.
Ung kona kemur yfirleitt um þrjúleytið, kaupir sígarettur, dagblað dags-
ins sem er liðinn, poka með sælgæti, gos og stundum kaffi.
TMM_4_2009.indd 63 11/4/09 5:44:39 PM