Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Page 84
Þ o r s t e i n n A n t o n s s o n
84 TMM 2009 · 4
hlýturðu að minnast þess, ef þú hugsar þig um. Ég tel heldur engan skaða, að hún
var ekki auglýst. Persónusögulegt plagg, eins og hún er, þarf ekki að auglýsa.
Svo mörg eru þau orð um þá sögu í bili, og vil ég nú aftur snúa mér að nýjustu
sögunni minni, þeirri sem þú hefur í fórum þínum og heitir „Vögguvísa“.
– – –
Það mun hafa verið skömmu eftir að ég kom heim, haustið 1947, eða í nóvember,
að mér kom til hugar efni í smásögu, sem átti að gerast í billjardstofu. Sagan átti
að gerast á tæpum klukkutíma og varla verða lengri en fjórar eða fimm síður
crown. Ég velti efninu fyrir mér lengi og skrifaði ekki staf, meðfram vegna þess,
að ég mátti ekki skrifa, sökum nýafstaðinna veikinda. Mig kitlaði í fingurna eftir
því að gera sögunni skil; og ídean yfirgaf mig ekki, heldur jókst hvað leið, unz
um vorið, að ljóst var, að þetta myndi aldrei verða smásaga, heldur skáldsaga.
Snemma um veturinn hafði ég byrjað á því að orðtaka reykvískt talmál, og er
sú skrá í fórum mínum nú, fullgerð. Þetta nýstárlega orðasafn, með skýringum
á uppruna, notkun og merkingu orðanna, veitti mér mikla hjálp og beinlínis gaf
mér ídeur, þegar ég loksins fór að notera hjá mér þau drög, sem urðu uppistaðan
í „Vögguvísu“. En ekki skrifaði ég söguna fyrr en í sumar sem leið, úti í Helsing-
fors, og þá voru liðin tvö og hálft ár frá því ég gekk frá „Man ég þig löngum“ – og
margt búið að ske í þroska mínum, sem ekki er tímabært að ræða um nánar hér.
Nema hvað, með „Vögguvísu“ tók ég upp önnur vinnubrögð en ég hafði áður
notað, vinnubrögð, sem ég býst við að viðhalda, ef ég skyldi einhverntíma skrifa
skáldsögu aftur. Í þeirri sögu geri ég tilraun til að sýna einskonar „þverskurð“ af
reykvísku lífi. Og það er ekki mér að kenna, ef myndin er eitthvað annað en falleg
í sárið. Sum beztu og sönnustu málverk þýska Weimarmálarans Groz þykja ekki
beinlínis fögur. En þau verða lengi talin sannasta myndlist Evrópu frá árunum
1918–1933.
Í „Vögguvísu“ geri ég semsagt tilraunir, bæði hvað snertir mál, byggingu,
söguefni, jafnvel stíl. Enginn skal fúsari til að viðurkenna en ég, að sumt í bók-
inni er undir vísvitandi áhrifum frá höfundum, sem ég las árin 1948–49, ekki
hvað sízt James Joyce, Ödön von Horváth og Faulkner. Hins vegar leyfi ég mér að
vona, að ekki sé hægt að gera heiðarlegri tilraun til að skrifa aktúela skáldsögu en
ég hefi þar gert. Má vera, að tilraunin hafi ekki tekizt sem skyldi. Um það er of
snemmt að dæma að svo stöddu. Hitt er víst, að stærra spor en liggur milli fyrri
skáldsagna minna og þessarar hefur enginn íslenzkur ungur rithöfundur stigið
undanfarna áratugi.
Þegar ég skrifa þessar línur kemur mér til hugar, að ef til vill er það skylda mín
að skrifa meira um bókmenntir en ég geri. Það er ef til vill ekki þess vert að senda
frá sér hvert skáldverkið á fætur öðru fram fyrir almenning og gagnrýnendur, án
þess að gera grein fyrir því annað slagið, hvað er að ske í bókmenntaheiminum,
þó ekki væri til annars en að sýna fram á, að maður viti, hvað maður er að fara.
En margt þarf að gera og mörgu að sinna. Það eru svo mörg verkefni fyrir stafni,
að ég gleymi því langoftast, hvað ég er blankur, meira að segja því, að bókaútgef-
endur eru háðir sömu fjárhagslegum erfiðleikum.
TMM_4_2009.indd 84 11/4/09 5:44:41 PM