Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Síða 118
D ó m a r u m b æ k u r
118 TMM 2009 · 4
tónleikar hljómsveitarinnar Led Zeppelin hér á landi á þeim tíma og fleiri við-
burðir úr heimi rokktónlistarinnar.
Þegar bókin er lesin kemur þó í ljós að efni hennar er mjög fjarri þeim anda
friðar og ástar sem jafnan er tengt þessu tímabili. Á það hefur reyndar verið
bent að hippahreyfingin hafi ekki verið jafn saklaus og oft er haldið fram og þá
bent á ýmsa viðurstyggilega glæpi sem framdir voru í tengslum við hana. Líkt
og Bítlalagið „Helter Skelter“ er sagt hafa verið kveikjan að grimmilegum
morðum Charles Mansons í Kaliforníu á þeim tíma mynda heimsókn og tón-
leikar hljómsveitarinnar Led Zeppelin hingað til lands baksviðið að þeirri
skelfilegu ofbeldisárás sem lýst er í þessari sögu. Í báðum tilfellum er ráðist á
þungaða konu – klíka Mansons myrti leikkonuna Sharon Tate, þáverandi eig-
inkonu kvikmyndaleikstjórans Romans Polanski, sem var barnshafandi, en í
bók Ólafs ræðst unglingsstúlka, sem skömmu áður hafði verið nauðgað hrotta-
lega, á barnshafandi stúlku sem hún þekkir ekki neitt svo hún deyr í kjölfar-
ið.
Þetta er ekki eina ofbeldisverkið í bókinni, en það er athyglisvert að hvorki
fyrrnefndri nauðgun né morði sem er framið í lok bókarinnar er lýst fyrir les-
andanum, en þessari árás er aftur á móti ítarlega lýst. Þetta er óskiljanlegur
verknaður. Hinn alvitri sögumaður varpar aðeins litlu ljósi á hann þegar hann
gerist en öll sagan hnitast í raun um hann. Hér er horft inn í myrkur manns-
sálarinnar og viðfangsefnið leiðir hugann að nóvellu sem Ólafur Gunnarsson
sendi frá sér snemma á ferli sínum, árið 1984, og ber heitið Gaga. Sú bók fjallar
um mann sem hafði lesið yfir sig af vísindaskáldsögum og telur sig einn morg-
uninn hafa vaknað á plánetunni Mars sem Marsbúar hafa útbúið sem nákvæma
eftirlíkingu af átthögum hans. Þannig verður allur veruleikinn að ósvífinni
blekkingu geimveranna og allar manneskjur að Marsbúum í dulargervi. Til að
svipta af þeirri blekkingu ákveður hann að drepa einn þeirra og það er álíka
tilgangslaus og hrottalegur verknaður og sá sem lýst er í þessari nýju sögu.
Strax í sögunni Gaga var Ólafur farinn að velta fyrir sér undirrót ofbeldisins.
Valdi, söguhetja þeirrar bókar, er maður sem þráir að komast út fyrir sín tak-
mörk, afneitar hinum mennska heimi í því skyni og er tilbúinn til að drepa til
að sanna að hann hafi á réttu að standa. Bæði hann og söguhetjan í Ljóstolli,
sem Ólafur hafði sent frá sér nokkru áður, voru í raun öfgakennd afsprengi
afþreyingarsagna sem dugðu þeim illa þegar reynt var að heimfæra þær upp á
lífið sjálft líkt og riddarasögurnar Don Kíkóta forðum.
Í þessari nýju skáldsögu liggja rætur ofbeldisins þó ekki aðeins í vímuefna-
neyslu og veruleikafirringu hippamenningarinnar, heldur er hér teflt saman
andstæðum sjónarmiðum úr fornum trúarbrögðum og menningu, hefndinni
og fyrirgefningunni, hinu forna lögmáli Gamla testamentisins, auga fyrir auga
og tönn fyrir tönn, og boðorði Krists um að rísa ekki gegn þeim sem gera
manni mein, að bjóða hina kinnina sé maður sleginn. Í sögunni er sýnt hvern-
ig þessi sjónarmið vegast á í persónunum sjálfum og jafnframt hvernig veik-
leikar og brestir þeirra geta af sér heift og ofbeldi sem aftur valda sárum sem
leiða til frekari ógæfu. Þannig bætast sífellt nýjar hörmungar á þær sem fyrir
TMM_4_2009.indd 118 11/4/09 5:44:44 PM