Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Page 34
A n a S t a n i c e v i c
34 TMM 2015 · 1
eru syrgjendur hver í sínum heimi og einangraðir, en í þessu málverki er
nýtt minni: lítil stelpa sem starir beint út úr málverkinu og skapar tengsl
við heiminn utan við það. Rauði kjóllinn hennar hefur verið túlkaður
sem tjáning á „skíðlogandi tilfinningaútrás, sem andstæða þögullar og
draugalegrar sorgar fullorðinna“.30 Eins og Munch notar rauðan kjól
stúlkunnar til að undirstrika tilfinningar hennar, notar Sjón rauða klútinn
til að gefa í skyn hvað vekur tilfinningar í Mána Steini, þ.e.a.s. Sóla Guðb-.
Ef lesandinn reynir að sjá fyrir sér háaloftið, þar sem Máni Steinn býr með
gömlu konunni, bara út frá því sem Sjón lýsir er allt frekar grátt og dökkt á
heimili þeirra, nema þessi rauði klútur sem drengurinn sefur með um háls-
inn. Rauður klúturinn er það eina sem vekur hamingju í lífi hans.
Það er einnig athyglisvert hvaða aðferð Munch notaði til að hressa upp
á málverkið „Losun“ sem hafði orðið fyrir vatnstjóni. Hann leggur bara
áherslu með rauðum lit í sumum atriðum í myndinni. Það eru nefnilega
máni og mánaskin í vatninu, hár stelpunnar, rauð sársaukablóm og blóðrauð
lauf á trjágreinunum.31 Hár stelpunnar er einasta tengingin milli hennar og
mannsins sem er að slitna í þessu málverki, eins og samband þeirra. Munch
notar konuhár oft sem tengipunkt milli kvenna og karla og það er einmitt
hárið sem tengir þau saman í málverkinu „Aðdráttarkraftur“. En blómin og
laufin sem vaxa í kringum þunglynda manninn sem horfir niður saman-
skroppinn eru blóðrauð og tákna ástarsorgina sem sker hann til blóðs. Það
skiptir Munch og áhorfandann ekki miklu máli hvort restin af málverkinu
sé skemmd og sjáist ekki nógu vel eða ekki. Það sem skiptir máli rammar
Munch inn með nokkrum strokum af rauða litnum. Þetta er það sem losun
þýðir fyrir hann. Sú tilviljun að málverkið hans hafi orðið fyrir skaða sýnir
bókstaflega hvernig Munch annars vinnur með málverk og tjáningu. Með
líkum hætti rammar Sjón með rauða litnum inn allt það sem skiptir máli
fyrir Mána Stein.
Losun (1894)
Dauða móðirin og barnið (1897–99)