Saga - 2014, Page 54
„eftirtalin atriði“. en þau fást ekki birt, vegna þeirra hagsmuna
breskra stjórnvalda að þeir sem ræða við fulltrúa þeirra megi vita að
trúnaður hvíli yfir orðum þeirra um árabil.74
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið er vel
dregið saman að neyðarlagadaginn 6. október og þar um bil reyndu
íslenskir ráðherrar og embættismenn að forðast samtöl við Whitting
sendiherra og aðra fulltrúa breskra stjórnvalda. Sömuleiðis vildu
þeir vera loðnir í svörum þegar tekist hafði að króa þá af. Það kom
skýrt á daginn í símtali fjármálaráðherranna Árna M. Mathiesens og
Alistair Darlings, en dæmin eru annars fjölmörg.75 Svo mörgu var
að sinna þessa örlagaríku daga að ekki gafst ráðrúm til að huga að
öllu sem þurfti. Á hinn bóginn máttu ráðamenn vita að afstaða
breskra stjórnvalda skipti sköpum þegar Icesave-reikningarnir voru
annars vegar. Með hliðsjón af bresku heimildunum má spyrja hvort
það hafi verið skynsamlegt að fara undan í flæmingi. Þær staðfesta
að valdhafar ytra fylltust tortryggni og reiði í stað þess að ljá máls á
sameiginlegum lausnum.
Þetta hefði ekki skipt máli ef valdhafar í Reykjavík hefðu bók-
staflega getað sagt öllum útlendingum að fara til fjandans. en sú var
varla raunin. Bresku skjölin gefa í það minnsta til kynna að breskum
ráðamönnum fannst þeir hafa öll ráð Íslendinga í hendi sér, að
íslensk stjórnvöld myndu einfaldlega viðurkenna ábyrgð á Icesave-
innstæðum með góðu eða illu. Rás atburða virtist síðan staðfesta
það viðhorf. Síðdegis 11. október var létt yfir Ian Whitting, ef marka
má skeyti sem hann sendi þá frá Reykjavík. Fulltrúar breska fjár-
málaráðuneytisins væru á leið heim, fundir þeirra með íslenskum
embættismönnum hefðu gengið vel og vænta mætti samkomulags
um Icesave-reikningana.76
Þegar hér var komið sögu ræddu breskir embættismenn sín á
milli um þá „auðveldu sigra“ (e. quick wins) sem þeir ættu nú að
vinna. Þeir voru útskýrðir en eru faldir undir svörtu bleki eins og
sakir standa. Um leið var vakið máls á því að þegar samkomulag
um Icesave-samningana væri í höfn ættu bresk stjórnvöld að varpa
guðni th. jóhannesson52
74 FOIA. Whitting sendiherra í Reykjavík (ekki upplýst um móttakanda), 10.
október 2008, 15:00.
75 Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna vII, bls. 147−151. Sjá einnig Árni M.
Mathiesen og Þórhallur Jósepsson, Árni Matt. Frá bankahruni til byltingar
(Reykjavík: veröld 2010), bls. 55 og 209−213.
76 FOIA. Whitting sendiherra í Reykjavík (ekki upplýst um móttakanda), 11.
október 2008, 17:20.
Saga haust 2014 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 17.5.2019 10:15 Page 52