Saga - 2017, Blaðsíða 41
Sögulegar forsendur
Mér, sem sagnfræðingi með áhuga á Reykjavíkursögu, virtist ein -
boðið að gerast baráttumaður fyrir verndun Grjóta þorps. Það var
auðséð hvernig hús í Grjótaþorpi vitnuðu um sögu Reykjavíkur, svo
sem atvinnu og efnahag. Undirstaðan var saltfiskur, hann fór að
skipta höfuðmáli á fyrri hluta nítjándu aldar og fyrir hvert kíló af
fiski sem fór í salt fékkst mun meira en fyrir sömu þyngd sem var
hert.41 Efnahagur batnaði og þeim sem reru á opnum bátum (ekki
skútum) gafst þor til að gera tilraunir með endurbætur. Engeyjarlag
kom fram í bátasmíði, sjóhæfni bátanna jókst og seglabúnaður var
stórbættur. Menn fóru lengra til veiða en áður, jafnvel alla leið suður
í Garðsjó og heim aftur í einum túr að vetrarlagi. Torfhús tómthús-
manna urðu sum myndarlegri, stærri, með meira timbri innan dyra
og stundum þiljuðum stofum. En svo lærðu tómthúsmenn að reisa
steinbæi og sumir þeirra voru ærið myndarlegir (dæmi Hákot og
Hóll (horfinn) í Grjótaþorpi). Og þeir sem áttu timburhús lengdu
þau og bættu hæð ofan á (t.d. Sjóbúð í Grjótaþorpi, horfin). Um 1880
fór skútuútgerð frá Reykjavík loks að ganga vel og þá varð bylting;
reist voru myndarleg timburhús, sum í sveitserstíl eða afbrigðum
hans, og hið merkilega gerðist: Reykvíkingar klæddu þessi timbur-
hús sín með bárujárni.42 Fullyrt er að bárujárn hafi ekki verið notað
svona annars staðar á byggðu bóli, þetta væri framlag Reykvíkinga
og fleiri landsmanna til byggingarlistar heimsins. Þessu hefur, mér
vitanlega, ekki verið mótmælt með rökum.
álitamál40
41 Um þetta og eftirfarandi, Þórður Ólafsson, „Fiskveiðar Reykvíkinga á síðara
helmingi 19. aldar“. Þættir úr sögu Reykjavíkur. Gefnir út vegna 150 ára afmælis
Reykjavíkurkaupstaðar (Reykjavík: Félagið Ingólfur 1936), bls. 46‒74; Helgi
Þorláksson, „Skútur breyttu bænum“, Vinaminni. Blað um umhverfisverndun, 1:1
(1978), bls. 16; Helgi Þorláksson, „Upphaf og ekkert meira. Þétt býlis vísar á
Íslandi fram á 19. öld“, Borgarbrot. Sextán sjónarhorn á borgarsamfélagið. Ritstj.
Páll Björnsson (Reykjavík: Borgarfræðasetur og Háskólaútgáfan 2003), bls. 33–
44, einkum 34‒36.
42 Um sveitserstíl, drekastíl, bárujárn, nýklassík, módernisma og funkisstefnuna
sjá Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson, Kvosin. Byggingar -
saga miðbæjar Reykjavíkur (Reykjavík: Torfusamtökin 1987), bls. 296–301.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:53 Page 40