Saga - 2017, Blaðsíða 96
eins og djöfull“, og einnig að útsýnið til norðurs sé „mjög gott & og
afar rómantískt & falleg gjáin þar verður farvegur ár sem rennur yfir
flúðir gegnum hana“.28
Stanley og samferðamenn hans gistu með líkum hætti aðeins eina
nótt á Þingvöllum, í ágúst 1789, á leið frá Geysi til Reykjavíkur. Í dag-
bók James Wright, líkt og í ferðabók Eggerts og Bjarna, er rætt um
hve hraunið á Þingvöllum sé erfitt yfirferðar fyrir ríðandi menn en
líka nefnt hvað séra Páll Þorlákssson, sem hafði tekið við brauðinu
af séra Magnúsi, sé óliðlegur þegar hópurinn óskar eftir að gista í
kirkjunni. Prestinn, skrifar Wright hneykslaður, „skorti meira að
segja þá kurteisi, eða réttara sagt kjark til þess að gera persónulega
grein fyrir þessari neitun sinni“.29 Niðurstaðan verður sú að leið -
angursmenn tjalda í hólma í Öxará. Wright ræðir hvorki um sögu
Þing valla né hlutverk staðarins í samtímanum en dáist að fegurð
Öxarár foss og Þingvallavatns. Isaac S. Benners lýsir líka vel þóknun
á Almannagjá og fossinum sem hann segir gefa „öllu landslaginu
rómantískan og sérstæðan svip, ásamt með eyðileika hins brunna og
sprungna hrauns“.30 Hann lýsir tregðu séra Páls til að lána þeim
kirkjuna en skýrir hana svo að presturinn noti hana sem geymslu-
skúr. En sögu Þingvalla ber ekki á góma. Sama máli gegnir um
færslur þriðja dagbókarritarans, Johns Baine. Hann hefur orð á því
hve vegurinn yfir hraunið hafi verið vondur og gjárnar erfiðar yfir-
ferðar og setur hvort tveggja í samband við nýafstaðna jarðskjálfta á
Suðurlandi. Hann talar um gestrisni séra Páls af kaldhæðni og harm-
ar að þeir félagar skuli ekki hafa hreiðrað um sig í húsunum á vestari
bakka árinnar í stað þess að hírast í tjaldi. Segist hann hafa stungið
upp á því að þeir hefndu sín með því að sprengja annað húsið en
ónefndur ferðafélagi fær hann ofan af því eftir að hafa útskýrt að það
tilheyri ekki prestsetrinu. Baine gerir eftirtektarverðar teikningar af
þessum byggingum, sem og Almannagjá, Öxará og Þingvallavatni,
enda er fegurð staðarins honum hugleikin: „þar vantaði ekkert það,
sem íslenskt landslag hefir að bjóða til að vera athyglisvert“.31
hver skóp þingvelli …? 95
28 Sir Joseph Banks, Iceland and the North Atlantic 1772–1820, Journals, Letters and
Documents. Ritstj. Anna Agnarsdóttir (London: The Hakluyt Society, Routledge
2016), bls. 95 (þýðing mín).
29 John F. West (útg.), Íslandsleiðangur Stanleys 1789. Þýð. Steindór Steindórsson
frá Hlöðum (Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 1979), bls. 153.
30 Sama heimild, bls. 244.
31 Sama heimild, bls. 331.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 95