Saga - 2017, Blaðsíða 112
sagt að menn efni til bændaglímu í Fangbrekku en haldi síðan „til
búda sinna og tóku snædíng allir í hóp undir berum himni, voru
menn kátir og súngu vísur þessar, (þær skulu koma ad ári).“77
Í samræmi við þau orð hefst þriðji árgangurinn á fjórum kvæðum
(þrjú eru eftir Finn Magnússon og það fjórða eftir Bjarna Þorsteins-
son amtmann) en í kjölfarið fylgir eftirfarandi lýsing:
Eptir ad menn høfdu matast og súngid vísur þessar, tókú sumir ad
stínga upp búdir forfedranna, en sumir tøludust vid þarí kríng. Einn
stack upp búd Snorra goda, annar búd Skapta løgmanns, þridji búd
Gudmundar ens ríka, fjórdi búd Halls af Sídu, og fimti búd Þorgeirs á
Ljósavatni, og s. frv. Gengu menn ad þessu verki med miklu kappi og
gledi.78
Hér fjölgar enn þeim fátæklegu fornleifum sögualdar sem Finnur
Magnússon hafði talið að leyndust á Þingvöllum en upptalning
Baldvins gæti byggst á títtnefndu „Alþingis Catastasis“.
Um leið vísa þessi skrif fram á veginn, bæði til þjóðahátíðanna
sem haldnar hafa verið á Þingvöllum frá árinu 1874 og marghátt -
aðra fornleifarannsókna sem gerðar hafa verið þar undanfarin 150
ár. Einnig má rifja upp að á síðari hluta nítjándu aldar var ítrekað
efnt til svonefndra Þingvallafunda sem báru svip af þeim samkom-
um sem sviðsettar höfðu verið í Ármanni á alþingi.79 Í Lanztíðindum
vorið 1851 er til að mynda sagt frá væntanlegum þjóðfundi í Reykja -
vík þá um sumarið og jafnframt þeim áformum „að alþíngismenn
kæmu saman á Þingvelli við Öxará þegar þeir ríða til þíngs og
töluðu sig þar saman og skýrðu fyrir sjer málefni þau, sem þeir í
hvert sinn byggjust við, að koma mundu til umræðu á þínginu“.80 Í
fundargerð, sem skrifuð var eftir slíkan Þingvallafund árið 1853,
segir enn fremur: „Fundurinn átti líku að hrósa og fyrri, fyrst og
fremst góðri veðráttu og þar næst gleði og ánægju allra þeirra, sem
hann sóktu.“81
hver skóp þingvelli …? 111
77 Sama heimild, bls. 184.
78 Baldvin Einarsson, Ármann á alþingi 3 (1831), bls. 11.
79 Birgir Hermannsson segir að 25 slíkir fundir hafi verið haldnir á Þingvöllum á
tímabilinu 1848 til 1907. Sjá Birgir Hermannsson, „Hjartastaðurinn: Þingvellir
og íslensk þjóðernishyggja“, bls. 35.
80 „Um þingvallafund í sumar“, Lanztíðindi 15. apríl 1851, bls. 193.
81 „Frá Þingvallafundi“, Ingólfur 2. júlí 1853, bls. 50.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 111