Saga - 2017, Blaðsíða 151
um í þessu. Það fer nú betur, að svo lítur út sem þessi ósiður fari heldur
nokkuð mínkandi, og að minnsta kosti er það víst, að allflestir Íslend -
íngar, sem nú á tímum sigla til útlanda, láta sér enga niðurlægíngu
þykja að nefna sig nöfnum feðra sinna á móðurmáli sínu.13
Höfundurinn talaði þar um ættarnöfnin sem hinn fullkomna ósið
sem afmyndaði móðurmálið. Reyndar eru þessi orð athyglisverð í
ljósi þess að höfundurinn bar sjálfur ættarnafn; hann hét Sigurður
Hansen.
Þeir sem skrifuðu í landsmálablöðin á síðari hluta 19. aldar tóku
ósjaldan djúpt í árinni varðandi ættarnöfn. „Apaskapur“ og „hégóma -
dýrð“ voru orð sem til dæmis voru notuð í Norðanfara árið 1869 til
að lýsa hinum nýja sið. Málflutningur þeirra sem gagnrýndu ættar-
nafnasiðinn tengdist auk þess baráttunni gegn því að foreldrar létu
skíra börn sín með nýjum og óvenjulegum eiginnöfnum, „viðrinis-
nöfnum og nafnskrípum“, eins og það var orðað.14
Afsprengi þéttbýlismyndunar?
Vissulega var það svo að samhliða vaxandi þéttbýlismyndun á
síðustu áratugum nítjándu aldar urðu ýmsir, til að mynda kaup -
menn, sem gjarnan voru danskir að uppruna og báru því dönsk ættar -
nöfn, meira áberandi í mannlífinu. Og á Íslandi, eins og annars staðar
í álfunni, var það fyrst í kaupstöðunum sem ættarnöfnin ruddu sér
til rúms. Menn fóru að tala um þau, eins og eftirfarandi tilvitnun úr
blaðinu Víkverja frá 1874 sýnir, sem eitt af kennimörkum þéttbýlis:
Eitt einkenni kaupstaðarlífsins hér á landi hefir verið, að þeir innlend-
ingar, er settust að í kaupstað, hafa álitið það nauðsynlegt að breyta
nafni sínu. … Þeir, er héldu bústað sínum í sveitinni, hafa flestir haldið
sínum kristilegu nöfnum, og „dal“irnir, „firð“irnir, „stað“irnir, „senirnir“,
páll björnsson150
13 Sigurður Hansen, „Um mannaheiti á Íslandi árið 1855“. Skýrslur um landshagi
á Íslandi 1858, bls. 512.
14 Þar sagði: „En má geta eins, er virðist vera langt á eptir tímanum. Það er apa-
skapur ýmsra, sem af einhverri óhyggilegri hjegómadýrð reyna að fylgja
erlendu sniði án greinarmunar, í stað þess að halda fast við hið þjóðlega, þegar
það er fagurt og gott, en taka það eina eptir öðrum þjóðum, er betur má fara.
Slíkir eru t.a.m. þeir er óprýða tungu vora, með því að láta börn sín heita ein-
hverjum viðrinisnöfnum eða nafnskrípum, eða með því að hnoða upp á þau
fleirum nöfnum, sem illa fer í íslenzkri tungu, eða með því að taka sjer ættar-
nöfn, og margt fleira. Því um líkt eykur eigi virðingu neins til muna nú á 19.
öld.“ Sjá „Grísir gjalda, en gömul svín valda,“ Norðanfari 7. des. 1869, bls. 93.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 150