Saga - 2017, Blaðsíða 252
ferðum. Sú aðferðafræði á að mörgu leyti vel við um viðfangsefni þessar ar
bókar og hefur reynst höfundum notadrjúg við að greina störf berfættu
sagnfræðinganna, stöðu þeirra í nærsamfélagi sínu og áhrif þeirra á
umhverfi sitt og þar með sögu lands og þjóðar. En um leið má spyrja hvort
þessi aðferðafræði komi líka í veg fyrir að höfundarnir velti upp spurning-
um, út frá viðfangsefninu, sem kalla mætti stórsögulegar líkt og spurning-
arnar sem varpað er fram hér að ofan.
Sigurður Gylfi hefur áður fært rök fyrir því sem hann kallar einvæðingu
sögunnar (e. the singularization of history) og felst í því að forðast þá tilhneig-
ingu sagnfræðinga, sem fást við einsögu, að reyna í sífellu að staðsetja
efnivið sinn í stærra sögulegt samhengi, sem aftur hefur verið ákvarðað af
utanaðkomandi öflum. Hér mætti sem dæmi nefna sagnritun um sögu
þjóða eða um sögu Vesturlanda eða aðrar stórsögur (e. grand narratives) sem
eru þá eins og vörður á heiðarvegum sagnritunarinnar og stýra þeirri leið
sem sagnfræðingar feta í rannsóknum sínum. Að mörgu leyti get ég tekið
undir þessa hugmynd Sigurðar Gylfa, sér í lagi eins og hún er rökstudd í
þessari bók (bls. 60–61) þar sem höfundarnir hafna ekki mikilvægi þess að
setja efnivið sinn í samhengi (e. contextualization) en leggja að sama skapi
áherslu á að forðast alhæfingar út frá honum (e. generalization). Ég velti því
engu að síður fyrir mér hvort þessi mörk séu alls kostar ljós, eða þeim beitt
með nægilega markvissum hætti, í bókinni. Þannig elta höfundar ekki ólar
við spurningar eins og þær sem varpað var fram hér að framan. En í öðrum
köflum bókarinnar er varpað fram fullyrðingum sem mér virðist vera óþarf-
lega miklar alhæfingar um flókin viðfangsefni. Þannig er dregin sú ályktun
að áhrif umræddra skrifara á nærsamfélag sitt og menningarlíf þess hafi
verið gríðarleg („enormous“) og að sökum starfa þeirra hafi stór hluti („a
large part“) íslenskrar bændastéttar lagt sig fram um að lesa, skrifa og fram-
leiða texta og handrit (bls. 116). Þetta þykir mér full djarflega ályktað og í
raun óþarfi að ætla þessum skrifurum svo stórtæk samfélagsleg áhrif. Störf
þeirra voru merkileg og rannsóknaverð alveg óháð því hversu mikil áhrif
þeirra voru á nærsamfélag sitt.
Eins er í kafla um húsakynni og hreinlæti á meðal alþýðu á nítjándu öld
(bls. 75–86) fleygt fram nokkuð grófum alhæfingum og að mestu án stærra
samhengis og án þess að rýnt sé í orsakir (en þeim mun meir á afleiðingar).
Dregin er upp mjög dökk mynd af óhreinindum og vosbúð og fullyrt að
flest heimili á Íslandi hafi einkennst af yfirþyrmandi vesöld („the homes of
most people in Iceland exhibited a state of overwhelming squalor“ (bls. 84)).
Heimildir fyrir þessari fullyrðingu eru annars vegar ævisögur þar sem höf-
undar rifja upp húsakynni úr barnæsku sinni, yfirleitt skrifaðar eftir að stór-
tækar breytingar urðu á húsakynnum Íslendinga á fyrri hluta tuttugustu
aldar, og hins vegar skýrslur menntaðra embættismanna sem töluðu fyrir
umbótum. Enginn fræðilegur fyrirvari er settur gagnvart túlkun þessara
heimilda, ekki leitað eftir heimildum sem sýna aðra mynd og ekki gerður
ritdómar 251
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 251