Saga - 2017, Blaðsíða 61
hugsanlegri úrlausn.19 Umfjöllun íslensku blaðanna á fyrstu mánuð -
um hernámsins fellur vel að þessum kenningum. Dregin var upp
skýr mynd af hinni óásættanlegu hegðun. Hópurinn var skilgreind-
ur út frá neikvæðum persónueinkennum, til dæmis að kunna ekki
fótum sínum forráð, vera vanvita og þar fram eftir götunum. Og
hugmyndum var hreyft um mögulegar lausnir, svo sem útskúfun,
refsingu og auknar heimildir lögreglu til inngripa.
Fyrst um sinn reyndu fulltrúar ríkisvaldsins að nálgast málið á
mjúkan hátt, með tilmælum og leiðbeiningum til almennings. Í
ávarpi sínu til þjóðarinnar í kjölfar hernámsins hvatti Hermann
Jónasson forsætisráðherra landsmenn til að sýna Bretum gestrisni
en annars eiga sem minnst samskipti við þá.20 Enn fremur fundaði
hann með skólastjórum til að ræða hvernig fá mætti unglinga lands-
ins til að sýna hinum erlendu gestum, á kurteislegan máta, að þeir
væru Íslendingar og hefðu því engan áhuga á eða hag af því að hafa
nokkur samskipti við hið erlenda setulið umfram það sem nauðsyn-
legt væri.21 Að loknum tveggja daga fundahöldum sendu skólastjór-
arnir frá sér ávarp til íslensku þjóðarinnar. Þar var brýnt fyrir æsku -
lýðnum, foreldrum, skólanefndum og öllum þeim sem hefðu með
ungmenni að gera að gæta í hvívetna að sæmd þjóðarinnar. Þjóðin
hefði barist í hartnær öld fyrir „sjálfstæði sínu og menningu, efna-
legri og andlegri“. Þó svo að Bretar hefðu lofað að virða sjálfstæði
Íslands, og engin teikn væru á lofti um að þeir hygðust ekki efna
þau heit, væri full ástæða til að vera á varðbergi því að hætta stafaði
af sambúð íslenskrar þjóðar og setuliðsins. Því var hvatt til varúðar
í umgengni við það. Unglingar ættu að vera kurteisir í samskiptum
sínum, en annars einarðir. Virðing þjóðarinnar og sómi hvers nem-
anda væri í hættu ef út af væri brugðið. Frelsið væri dýrmæt eign og
því mætti ekki glata. Ennfremur var lagt til að samdar yrðu reglu-
hafdís erla hafsteinsdóttir60
19 Erich Goode og Nachman Ben-yehuda, Moral Panics. The Social Construction of
Deviance (Oxford: Blackwell 1994), bls. 24–27. Sjá einnig Lbs.-Hbs. Jónas Orri
Jónasson, Viðhorf Íslendinga til afbrota, bls. 25–26.
20 „Ávarp forsætisráðherra til þjóðarinnar í gærkvöldi“, Alþýðublaðið 11. maí
1940, bls. 3.
21 „Sambúð Íslendinga og setuliðsins“, Tíminn 17. september 1940, bls. 353. Sjá
einnig „Ávarp til íslensku þjóðarinnar frá skólastjórunum“, Morgunblaðið 20.
september 1940, bls. 3 og 6. Fundinn sátu skólastjórar barna- og menntaskóla
frá landinu öllu, ásamt rektor Háskóla Íslands.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:53 Page 60