Saga - 2017, Blaðsíða 183
Diðrik frá Minden á sem sé að halda uppi sambærilegri starfsemi og
verið hafði í klaustrinu og á jörðum þess en ekki hindra hana.
Í ódagsettu bréfi kristjáns konungs til klaus van der Marvitzen um
klaustrin kemur líka fram að hirðstjóri eigi að koma ábóta og munk-
unum fyrir hjá bændum á klausturjörðunum og eiga þeir að fæða
þá og klæða.12 Alexíus ábóti fékk klausturhóla sér til viðurværis og
dvaldist þar til dauðadags. Að minnsta kosti einn munkanna, bróðir
Pétur, er sprelllifandi árið 1552 og dvelst þá í Viðey. Hans er getið
víða og er á framfæri klaustursins og fógeta. Árið 1552 segir í skila-
grein séra Jóns Bárðarsonar ráðsmanns: „Jtem broder Petther vj alne
[af lérefti].“ 13 Og í reikningum Eggerts Hannessonar sama ár kemur
fram að Pétur fær tíu álnir af vaðmáli og árið 1553 sex álnir af grófu
lérefti og sama ár tíu álnir af vaðmáli.14 Bróðir Pétur virðist og hafa
haft umsjón með skjölum klaustursins eftir að það varð konungs-
garður, ef marka má Eggert Hannesson.15 Svipaða sögu er að segja
frá Þykkvabæjarklaustri. Árið 1554 skipar kristján III. Halldóri Skúla -
syni Þykkvabæjarklaustur og meðal þess sem hann fær fyrirmæli
um að gera er að „undirholde de prester som udi samma closter
indgifne ere, eller her eftir indgifne verde, med nödtörftiga klæder
og föde“.16
Ekki hef ég fundið heimildir um aðra af þeim fjórum munkum
sem voru í Viðeyjarklaustri þegar það var lagt niður. Einn þeirra hét
Hallvarður og kemur maður með því nafni fyrir í fógetareikningum
á þessum árum, en svo virðist sem hann fái kaup þannig að óvíst er
hvort þar sé kominn bróðir Hallvarður. Einnig er líklegt að bræð -
urnir hafi týnt tölunni á þeim 12 árum sem liðin voru frá Við eyjar -
ráni. Það verður hins vegar ekki annað sagt en konungur hafi staðið
sína pligt gagnvart kanúkunum í Viðey og Þykkvabæ; aftur á móti
er hvergi minnst einu orði á skyldur við fátækt fólk sem dvalist hafi
í klaustrunum. Af því höfum við engar fréttir fyrr en nokkuð er liðið
á siðbreytingartímann, ef frá eru taldir hinir 40 fátæku í bréfi Ham -
borgar kaupmanna.
guðmundur j . guðmundsson182
12 DI X, bls. 481.
13 DI. Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn XII, 1200–1554. Útg. Páll
Eggert Ólason (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag 1923–1932), bls. 390.
14 DI XII, bls. 427, 586, 589.
15 DI XII, bls. 598.
16 Árni Magnússon, „Um klaustrin“, Jón Þorkelsson bjó til prentunar. Blanda II
(Reykjavík: Sögufélag 1921–23), bls. 32–42, einkum bls. 40.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 182