Andvari - 01.01.2014, Page 19
ANDVARI
LÚÐVÍK JÓSEPSSON
17
og fram kom í textanum aftan á umslaginu. Rétt er að taka fram að
heimildarmenn mínir í Neskaupstað hafa aldrei heyrt sögu Soffíu um
vetrarferðina yfir Oddsskarð.
Þórstína (reyndar stundum skrifuð Þorstína) Elísa Þorsteinsdóttir lést
1944. Hún átti fyrst þrjú börn með Jóni, svo kom Jósep við sögu hennar,
síðan átti hún tvö börn með Einari og átti því Lúðvík hálfsystkini,
eldri Jónsbörn og yngri Einarsbörn. Stefán Þorleifsson sagði mér frá
Þórstínu:
- Lúðvík sagði mér að Þórstína hefði verið einstaklega góð móðir.
Hún hafði verið gift Jóni Hávarðssyni og hann fór að segja Lúðvík til í
stærðfræði. Hann var þá orðinn blindur og Lúðvík kynntist honum ekki
sem sjáandi manni. Lúðvík vildi aldrei tala um föður sinn Jósep. Þegar
hann var orðinn lasburða hafði Lúðvík samt milligöngu um að hann
komst hér á sjúkrahúsið og dó þar. Jósep var mjög hlédrægur, eiginlega
mjög þögull maður. Einar Brynjólfsson fóstri Lúðvíks, seinni maður
Þórstínu, var ágætur maður. Þau voru saman í að hirða skólann, hann
og Þórstína.8
Jósep Gestsson lést 1969. Hann vildi framan af ekkert kannast við
Lúðvík. Það fannst Fjólu konu Lúðvíks leiðinlegt. Elín Steinarsdóttir,
sonardóttir Lúðvíks, segir svona frá: „Eins munum við pabbi bæði
eftir því að amma var alltaf örg út í Jósep því hann gekkst ekki við afa
fyrr en hann var orðinn þingmaður, afi var að sinna karli í laumi til að
styggja ekki ömmu. Könnumst ekki við sögu Soffíu um sýslumanns-
heimsóknina.“9
Jósep virðist lengst af hafa verið sjómaður á Austurlandi. Var í
Austur-Skaftafellssýslu samkvæmt manntalinu 1910. Hann var sonur
Gests Guðmundssonar sjómanns á Hrútseyri við Fáskrúðsfjörð og
Katrínar Þorsteinsdóttur.10 Hrafn Magnússon man eftir Jósep á Eski-
firði 1965. „Hann var svona rytjulegur kall, síðhærður og bítlalegur,
eflaust fullur þegar ég sá hann“, segir Hrafn.11 Lúðvík hafði lítið
samband við Jósep eins og fram hefur komið og nefndi hann aldrei
við sonardóttur sína, en þau voru góðir vinir afinn og eina barna-
barnið. Lúðvík sást þó stundum skjótast til pabba síns á Eskifirði eftir
að hann komst á fullorðinsár, en Lúðvík var orðinn 55 ára þegar Jósep
lést.12 Lúðvík sinnti semsé Jósep þó hann teldi Jón Hávarðsson föður
sinn, eins og hann sagði Elínu sonardóttur sinni og Smára Geirssyni.13
Afa þótti vænt um Jón, segir Elín.14 í Þjóðviljanum 4. júní 1985
birtust fallegar minningargreinar um bróður Jóseps, Lúðvík Gestsson.