Andvari - 01.01.2014, Page 152
150
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
Edgar Poe í ýmsum midlum
Það er semsé sitthvað óvenjulegt við hlut Poes í íslenskum bókmenntaheimi.
Og ekki úr vegi að fara frá Benedikt Gröndal til Þórbergs Þórðarsonar, ann-
ars meistara sem einnig átti gróteska strengi í skáldhörpu sinni. í janúar árið
1917 birti Þórbergur þýðingu sína á áðurnefndri sögu, „The Oblong Box“, sem
hann nefndi „Langa kistan“ og kom hún í blaðinu Höfuðstaðurinn. Tveimur
árum áður hafði Þórbergur hins vegar birt lítið kver með þýðingum sínum á
tveimur morð- og geðveikisögum eftir Poe, „Svarta kettinum" fyrrnefnda og
„Hjartslættinum" (sem nefnist á frummálinu „The Tell-Tale Heart“). Þórbergur
gaf kverinu heitið Kynlegar ástríður og á titilsíðu eru eftirfarandi skilaboð:
„Til varúðar! Sögur þessar geta verið of áhrifamiklar fyrir taugaveiklað fólk.“
Af þeim þremur sögum sem Þórbergur þýddi eftir Poe höfðu tvær verið þýdd-
ar áður, en hann varð fyrstur til að þýða „Hjartsláttinn“, sem eins og „Svarti
kötturinn“ fjallar um morðingja er felur lík í eigin húsakynnum. Fórnarlambið
er gamall maður sem býr í sama húsi; hann hefur ekki gert sögumanni neitt en
eitthvað verður til þess að hann - þótt hann sverji auðvitað af sér allt brjálæði
- fyllist löngun til að taka þennan gamla samferðamann af lífi.
Mér er ekki unt að skýra, hvernig hugmyndin varð til í höfðinu á mér, en frá því, að
eg varð hennar fyrst var, hefir hún lagt mig í einelti nótt og dag. Hún vakti ekki hjá
mér neinn ákveðinn tilgang. Hún var alveg ástríðulaus. Mér þótti vænt um gamla
góðmennið. Hann hafði aldrei gert mér neitt til meins. Hann hafði aldrei móðgað mig.
Eg þráði ekki auðæfi hans. Eg held, að það hafi verið augað í honum! Já, það var það!
Það líktist gammsauga. Það var fölleitt auga, blátt, og var sem grá móða lægi yfir því. I
hvert skifti, sem hann leit til mín auganu, fór um mig ískaldur hrollur [,..]39
í bók sinni Bréfi til Láru, sem birtist tæpum áratug síðar (1924), segir Þór-
bergur um þær skelfingar sem ásækja hann og greint er frá í bókinni að hann
hafi sjálfur lifað sérhvert atvik sem frá er greint. Þessari yfirlýsingu fylgja
athyglisverð orð um tengsl hann við aðra rithöfunda: „Þess vegna á svipuð
reynsla annarra rithöfunda sér rík ítök í mér. Fyrir því þýddi ég þrjár smá-
sögur af líku tæi eftir Edgar Allan Poe fyrir níu árum. Þær eru hver um
sig frumlegt meistaraverk. Einn af snjöllustu rithöfundum Frakka þýddi allar
sögur Poes á móðurmál sitt. Hann varð frægur fyrir. Ég þýddi að eins þrjár.
Og ég var skammaður fyrir. Að þýðingum mínum mátti margt finna. Enginn
fann þeim það til foráttu. En mér var úthúðað fyrir að vera að þýða annan eins
„óþverra og vitleysu“ á íslenzku.“
Það er ekki víst að mikill vitnisburður finnist um að Þórbergi hafi verið út-
húðað fyrir að koma Poe yfir á íslensku, en ljóst er að hann stillir sjálfum sér
upp við hlið Poes á jaðri hins íslenska bókmennta- og listheims, eins og hann
skynjar hann og skilur. „Sögur Poes“, segir hann, „stinga í stúf við gömlu