Goðasteinn - 01.03.1968, Page 23

Goðasteinn - 01.03.1968, Page 23
Nú færðist gráturinn í aukana. Ég heyrði, að Villi lét sögina nokkuð harkalega frá sér, svo það söng í henni. Og svo fóru þeir pabbi og Villi að athuga og virða fyrir sér þessa spýtu. Báðir ánægðir, heyrði ég. „Það er gott í þessum töflum,“ heyrði ég Villa segja. Pabbi sagði ekkert. Og svo labbaði pabbi fram á gólfið og út. Amma var hætt að spinna og líka gengin ofan. Ég stundi og grét, ég var búin að fá ekka. Skyldi nokkur eiga eins bágt og ég? En nú var pabbi kominn aftur og gekk rakleitt til Villa. Þá heyrði ég Villa segja: „Hver er að gráta?“ „Gráta, er nokkur að gráta?“ anzaði pabbi. Nú mjakaði ég mér enn betur niður í rúmið og breiddi alveg yfir mig. „Jú víst er það einhver," sagði Villi, og ég fann bláu, björtu augun hans skima um baðstofuna. Og nú hafði hann geng- ið á hljóðið, og áður en mig varði, hafði hann lyft sænginni ofan af mér. „Ásta, er þú að gráta?“ Það var undrun í spurningunni. En ég grúfði mig fast ofan í koddann, snökti og hafði harðan ekka. „Ert það þú, Adda mín, sem ert að skæla? Þú ert orðin svo stór stelpa.“ Þetta sagði pabbi í ávítunarróm, og ég heyrði að hann var bæði hissa og argur. „Látum hana jafna sig,“ bætti pabbi við. „Það er bezt að skipta sér sem minnst af krökkum, þegar þau láta svona. Þetta eru venjulega keipar, sem venjast smám saman af þeim.“ Og nú gekk pabbi út. Ég vissi, að hann var úrillur, hálf- vondur var ég hrædd um, þar sem ég, elzta barnið hans, lét svona keipa eftir mér. En Villa var öðruvísi farið. Hann gat ekkert aumt séð, án þess sjálfur að líða. Hann vildi því ævinlega vita, hvað var að, ekki sízt hjá okkur systkinunum, ef hann gat bætt úr því, sem á bjátaði. Hjarta þessa góða frænda míns var næmt fyrir öllu böli. Eins fús- lega tók hann líka þátt í gleðinni, þar sem hún var á ferð. Ég á nokkrar minningar um hann himinglaðan. En nú var Villi allt annað en ánægður. „Af hverju ertu að gráta, Ásta mín?“ spurði hann. Ég anzaði Villa engu, bara grét eins og ég framast gat. Þá tók Villi mig upp úr rúminu og settist á það með mig á hnjám sér. Hann vafði mig í sinn sterka, hlýja faðm og spurði: „Hvað hefur komið fyrir?" Ég þagði. „Af hverju crtu svona hrygg?“ Goðasteinn 21

x

Goðasteinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Goðasteinn
https://timarit.is/publication/1897

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.